Erlent

Þrír Bretar á einu ári hafa fallið fram af svölum í íbúðarblokk dauðans á Mallorca

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Óvenjulega mörg banaslys hafa orðið í blokkinni það sem af er ári og í öllum tilvikum voru það bresk ungmenni sem létust.
Óvenjulega mörg banaslys hafa orðið í blokkinni það sem af er ári og í öllum tilvikum voru það bresk ungmenni sem létust. BBC/Google Maps
Það sem af er þessu ári hafa þrír ungir Bretar dáið eftir að hrapa fram af svölum sömu íbúðarblokkar í Magaluf á Mallorca. Breska ríkisútvarpið segir mikið um að bresk ungmenni skemmti sér með áfengi um hönd á því svæði sem byggingin er. Engu að síður þykir þetta óhugnanleg tilviljun.

Fyrsta dauðsfallið varð í apríl þegar 19 ára bresk stúlka féll af svölum íbúðar sem hún leigði í blokkinni. Hún hafði gleymt lyklum sínum og reynt að klifra upp á svalirnar til að komast inn.

Í júní féll tvítugur breskur piltur fram af svölum sömu blokkar og lést eftir um 20 metra fall.

Nú fyrir helgi gerðist það síðan að átján ára piltur frá Bretlandi dó með sama hætti. Ekki er vitað hvað hann var að gera í blokkinni, talið er að hann hafi vafrað þar inn eftir drykkju.

Slys af þessum toga eru afar algeng meðal breskra sumarleyfisgesta á Spáni. Það sem af er ári hafa alls sex Bretar dáið eftir að falla fram af svölum á Spáni en það vekur athygli að helmingur þeirra dauðsfalla átti sér stað í sömu íbúðarblokk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×