Fótbolti

Deschamps: Spiluðum ekki okkar besta leik en skoruðum samt fjögur mörk

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Deschamps smellir rembingskossi á gullstyttuna
Deschamps smellir rembingskossi á gullstyttuna Vísir/Getty
Frakkar eru heimsmeistarar eftir sigur á Króötum í fjörugum úrslitaleik í Moskvu í dag. Landsliðsþjálfarinn Didier Deschamps var að vonum í sjöunda himni í leikslok.

„Hversu undursamlegt. Þetta er ungt lið sem er á toppi tilverunnar núna,“ sagði Deschamps í leikslok.

Sigurinn var aðeins annar sigur Frakka á HM í sögunni, sá síðasti kom fyrir 20 árum í Frakklandi. Þá var Deschamps í leikmannahópi Frakka og er hann aðeins þriðji maðurinn í sögunni til þess að vinna HM sem leikmaður og þjálfari.

„Við spiluðum ekki okkar besta leik en við sýndum andlegan styrk og náðum samt að skora fjögur mörk. Þeir áttu skilið að vinna.“

Úrslitaleikurinn var með fjörugarri úrslitaleikjum síðustu ára og voru skoruð sex mörk, honum lauk með 4-2 sigri Frakka.

„Þetta lið lagði sig alla fram. Við áttum nokkur erfið augnablik á leiðinni, það var svo sárt að tapa í úrslitum Evrópumeistaramótsins fyrir tveimur árum en við lærðum af því.“

„Þessi sigur snýst ekki um mig. Það eru leikmennirnir sem unnu þennan leik. Við höfum unnið mikið í 55 daga og þetta er uppskeruhátíðin. Við erum stoltir Frakkar.“

„Þessi sigur er fyrir þjóðina. Lengi lifi lýðveldið,“ sagði Didier Deschamps.


Tengdar fréttir

Frakkar Heimsmeistarar í annað sinn

Frakkar eru Heimsmeistarar í knattspyrnu eftir 4-2 sigur á Króötum í mögnuðum úrslitaleik í Moskvu þar sem Pogba, Mbappe og Griezmann skoruðu allir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×