Erlent

Segir bölvun hvíla á nafni Simbabve

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Nelson Chamisa.
Nelson Chamisa. Vísir/AP
Nelson Chamisa, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve, lofaði því í gær að ef hann kæmist til valda myndi hann breyta nafni ríkisins. „Simbabve getur ekki verið Simbabve áfram því Simbabve hefur verið lagt í rúst. Bölvun hvílir á nafninu og það sést á linnulausum ósigrum íþróttaliða okkar,“ sagði Chamisa.

Þess í stað lagði Chamisa til að þetta Afríkuríki fengi nafnið Mikla Simbabve. „Við munum kalla okkur Mikla Simbabve vegna þeirra frábæru tíma sem eru fram undan.“ Þá hét hann því einnig að færa þingið til borgarinnar Gweru, þótt Harare yrði áfram höfuðborg, og að gera borgina Mutare að ferðamennskuhöfuðborg landsins.

Forsetakosningar fara fram í Simbabve þann 30. þessa mánaðar. Fyrstu kosningarnar eftir langa valdatíð Roberts Mugabe. Sitjandi forseti, Emmerson Mnangagwa, þykir líklegastur til að bera sigur úr býtum en könnun Afrobarometer frá því í síðasta mánuði sýnir að hann nýtur stuðnings 42 prósenta kjósenda samanborið við 31 prósent Chamisa.

Kosningarnar hafa verið harðlega gagnrýndar. MDC-T hefur til að mynda haldið því fram að ríkisstjórnin hafi sett hina framliðnu á kjörskrá.

Þá hafa eftirlitsaðilar frá Evrópu og Bandaríkjunum haldið því fram að Simbabve sé einfaldlega ekki tilbúið til þess að þar geti farið fram frjálsar, sanngjarnar og trúverðugar kosningar.


Tengdar fréttir

Simbabve vill aftur í Breska samveldið

Forseti Simbabve Emmerson Mnangagwa hefur sótt um inngöngu í Breska samveldið, einnig hefur hann boðað til kosninga sem munu fara fram í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×