Erlent

Fengu hraunmola í gegnum þakið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá hvar hraunmoli fór í gegnum þak bátsins.
Hér má sjá hvar hraunmoli fór í gegnum þak bátsins. HAWAII DNLR
Tuttugu og þrír farþegar slösuðust þegar stærðarinnar hraunklumpur hafnaði á ferðaþjónustubát á Havaí. Bátnum hafði verið siglt meðfram eldfjallinu Kilauea sem gaus í maí síðastliðnum. Allar götur síðan hefur reykur og hraun liðast úr fjallinu, ásamt því að vart hefur orðið við reglulegar sprengingar í gosstöðinni.

Ein slík sprenging varð í gær þegar báturinn var skammt frá fjallinu. Í sprengingunni flugu upp stórir hraunmolar sem höfnuðu á bátnum sem fyrr segir. Þeir fóru meðal annars í gegnum þak bátsins og urðu til þess að fótbrjóta einn farþegann. Fjöldi annarra farþega brenndist og er nú hlúð að þeim á sjúkrahúsi.

Í samtali við breska ríkisútvarpið lýsa farþegar siglingunni, sem þeir segja hafa verið hræðilega. „Þegar þú sást það [hraunið] koma þá hafðirðu ekki tíma til að forða þér og það versta var að báturinn var lítill,“ er haft eftir einum farþeganum.

„Þannig að hrauni rignir yfir þig og þú getur ekki flúið. Maður var einungis með um sex metra og allir reyndu að fela sig á sama staðnum. Þetta var frekar ógnvekjandi.“

Talið er að báturinn gæti hafa hætt sér út fyrir svæði sem landhelgigæsla eyjanna hafði sagt vera öruggt. Málið er nú til rannsóknar af þarlendum samgönguyfirvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×