Erlent

Minntust MH17 fjórum árum seinna

Samúel Karl Ólason skrifar
Í Úkraínu voru blóm og leikföng lögð niður fyrir utan sendiráð Hollands.
Í Úkraínu voru blóm og leikföng lögð niður fyrir utan sendiráð Hollands. Vísir/Getty
Fjölskyldumeðlimir og vinir margra þeirra 298 sem dóu þegar MH17 var skotin niður yfir Úkraínu komu saman í Hollandi í dag, til að minnast þess að fjögur ár eru liðin frá því að BUK-eldflaug, sem framleidd var í Rússlandi, var notuð til að skjóta flugvélina niður yfir yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna sem njóta stuðnings Rússlands.

Flestir farþeganna voru frá Hollandi og var athöfn haldin við minnisvarða þeirra sem dóu í nærri Schiphol flugvellinum fyrir utan Amsterdam. Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, leiddi göngu að minnisvarðanum þar sem blóm voru lögð niður. Þá voru nöfn allra þeirra sem dóu lesin upp.

Piet Ploeg, formaður samtaka fjölskyldumeðlima þeirra sem dóu, sagði AFP fréttaveitunni að erfiðlega gengi að svara ýmsum spurningum. Hann sagði að leifar einhverra farþega væru enn í Úkraínu og ekki væri búið að bera kennsl á lík.



Ploeg sagði til dæmis frá því að bróðir hans, mágkona og frændi hefðu dáið þegar flugvélin var skotin niður. Ekki er búið að bera kennsl á bróðir hans.

Í Úkraínu voru blóm og leikföng lögð niður fyrir utan sendiráð Hollands.

Rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu fyrr á árinu að flugvélin hefði verið skotin niður af eldflaug sem komið hefði frá rússneska hernum og hún hefði verið flutt frá Rússlandi til Úkraínu. Í kjölfar þess lýstu yfirvöld Hollands og Ástralíu því yfir að yfirvöld Rússlands bæru ábyrgð á atvikinu.



Ríkisstjórnir Hollands og Ástralíu íhuga nú að höfða mál gegn Rússlandi en ríkisstjórn Vladimir Pútín þvertekur fyrir að hafa komið að örlögum MH17.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×