Erlent

Þekktur lýtalæknir í Brasilíu eftirlýstur vegna dauða konu sem lét stækka afturenda sinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Dr. Bumbum lagði á flótta þegar honum var ljóst að konan var látin.
Dr. Bumbum lagði á flótta þegar honum var ljóst að konan var látin. Vísir/Getty
Þekktur lýtalæknir í Brasilíu er sagður á flótta eftir að kona, sem hafði látið lækninn stækka sér afturendann, lést.

Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC. Lýtalæknirinn heitir Denis Furtado en hann hefur verið kallaður Dr. Bumbum.

Lögreglan í Brasilíu segir Furtado hafa framkvæmt aðgerðina á konunni, Lilian Calixto, á heimili sínum í borginni Rio de Janeiro.

Hún veiktist eftir aðgerðina og flutti Furtado hana á sjúkrahús. Þar hrakaði heilsu hennar hratt og hún lést nokkrum klukkutímum seinna.

Furtado hvarf eftir að ljóst var að konan væri látin og gaf dómari í borginni út handtökuskipun á hendur honum.

Læknirinn er afar þekktur í Brasilíu en hann kemur reglulega fram í sjónvarpi og er með tæplega 650 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlinum Instagram.

Calixto var 46 ára gömul tveggja barna móðir sem starfaði í banka. Hún hafði ferðast frá heimili sínu í borginni Cuiaba til að láta Furtado stækka á sér afturendann.

BBC segir að talið sé að notast hafi verið við akrýl-efni sem sé sprautað í afturendann til að stækka hann.

Talsmenn Barra D´Or sjúkrahússins í Rio de Janeiro segja að endurlífgunartilraunir hafi engan árangur borið og Calixto hafi verið úrskurðuð látin síðastliðinn sunnudagsmorgun.

Lögreglan í Rio segist hafa handtekið kærustu Furtado vegna gruns um að hafa aðstoðað við aðgerðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×