Erlent

Brutu á 12 ára stúlku í rúmt hálft ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mikil vitundarvakning hefur orðið á Indlandi í kynferðisbrotamálum í kjölfar ítrekaðra fregna af hrottalegum nauðgum.
Mikil vitundarvakning hefur orðið á Indlandi í kynferðisbrotamálum í kjölfar ítrekaðra fregna af hrottalegum nauðgum. Vísir/getty
Sautján indverskir karlar hafa verið ákærðir fyrir að hafa ítrekað brotið kynferðislega á 12 ára stúlku á sjö mánaða tímabili. Mennirnir eru sagðir hafa starfað í íbúðablokkinni þar sem stúlkan bjó; ýmist sem öryggis- eða lyftuverðir og pípulagningamenn.

Mennirnir, sem eru á aldrinum 23 til 66 ára, eru sagðir hafa byrlað stúlkunni og flutt hana rænulausa í tómar íbúðir í blokkinni þar sem þeir brutu á henni. Þarlendir miðlar segja jafnframt að brotin hafi átt sér stað í kjallara, í garði blokkarinnar, á almenningssalernum og í líkamsræktarstöð.

Brotin eru talin hafa verið tekin upp á myndband. Stúlkunni var tjáð að ef hún segði frá brotunum myndu mennirnir hlaða myndböndunum upp á netið og koma þeim í dreifingu. Þar að auki eru þeir taldir hafa hótað henni lífláti.

Upp komst um málið um helgina þegar stúlkan tjáði systur sinni frá brotunum. Mennirnir voru handteknir á mánudag og hafa þeir verið ákærðir fyrir nauðganir, morðtilraunir og hótanir.

Að meðaltali var tilkynnt um rúmlega 100 nauðganir á Indlandi á hverjum einasta degi árið 2016, þar af voru sex þolendur undir 12 ára aldri. Hrottalegt nauðgunarmál í upphafi árs varð til þess að refsingar í málaflokknum voru þyngdar. Nú geta einstaklingar sem nauðga börnum átt von á því að vera teknir af lífi.

Í skýrslu Thomson Reuters-stofnunarinnar, sem kynnt var í síðasta mánuði, kom fram að hvergi í heiminum er verra að vera kona en á Indlandi.


Tengdar fréttir

Dauðarefsing við nauðgunum á Indlandi

Ríkisstjórn Indlands hefur samþykkt dauðarefsingu fyrir nauðgara sem hafa nauðgað stúlkum yngri en 12 ára. Á sama tíma var lágmarksrefsing fyrir nauðganir hækkuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×