Fótbolti

,,Starf hjá Brasilíu eða Barcelona myndi ekki toppa Króatíu“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Zlatko Dalic
Zlatko Dalic Vísir/Getty
Zlatko Dalic, landsliðsþjálfari Króatíu, segir ekkert starf í knattspyrnuheiminum geta verið betra en að stýra króatíska landsliðinu.

Þetta sagði Dalic við heimkomuna til Króatíu þar sem liðið fékk svakalega góðar móttökur frá þjóðinni og voru leikmenn hylltir sem þjóðhetjur eftir að hafa náð í silfurverðlaun á HM í Rússlandi.

Það kom nokkuð á óvart þegar Dalic fékk starfið í október á síðasta ári en hann hafði þá þjálfað í Sádi Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum frá árinu 2010.

„Jafnvel þó ég yrði ráðinn hjá Brasilíu eða Barcelona yrði þetta alltaf mitt uppáhalds starf; að stýra króatíska knattspyrnulandsliðinu,“ sagði Dalic við heimkomuna.

„Við erum enn í sárum því við ætluðum að vinna þennan bikar. En ef einhver hefði boðið mér að komast í úrslitaleik HM fyrir mótið hefðum við alltaf tekið því,“ sagði Dalic, sigurreifur.

Ríflega 500 þúsund manns fylltu stræti Zagreb borgar og var sungið og dansað fram á rauða nótt. Tóku leikmenn virkan þátt í fagnaðarlátunum eins og sjá má á myndbandi sem fylgir fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×