Körfubolti

Kawhi Leonard að ganga til liðs við Toronto Raptors?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Leonard í einum af þeim níu leikjum sem hann lék síðasta vetur.
Leonard í einum af þeim níu leikjum sem hann lék síðasta vetur. vísir/getty

Allt útlit er fyrir að líklega stærstu leikmannaskipti sumarsins í NBA körfuboltanum séu að ganga í gegn þar sem ofurstjörnurnar Kawhi Leonard og DeMar DeRozan eru að skipta um lið.

Samkvæmt heimildum ESPN hafa Toronto Raptors og San Antonio Spurs náð samkomulagi um skiptin en samkvæmt sömu heimildum hafa viðræðurnar staðið yfir undanfarnar tvær vikur.

Gangi skiptin eftir verða þetta að teljast nokkuð óvænt tíðindi því þó Kawhi Leonard hafi vissulega verið orðaður við brottför frá Spurs í sumar var Raptors líklega ekki ofarlega á óskalistanum hjá kappanum en hann hefur ekki farið leynt með það að vilja ganga til liðs við LeBron James og félaga í LA Lakers.

Með þessu er Raptors að taka mikla áhættu þar sem Leonard á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum og gæti þá farið frítt næsta sumar á meðan DeRozan á þrjú ár eftir af sínum samningi.

Leonard gæti því tekið eitt tímabil í Toronto en fært sig svo um set til Los Angeles næsta sumar.

Að auki er Leonard að koma til baka eftir erfið meiðsli sem gerðu það að verkum að hann spilaði aðeins níu leiki fyrir San Antonio Spurs á síðustu leiktíð. 

DeRozan hins vegar átti mjög gott tímabil fyrir Raptors þar sem hann skoraði 23 stig að meðaltali í leik auk þess að gefa 5 stoðsendingar og hjálpaði liðinu að vinna deildarkeppnina austan megin en Raptors var svo sópað út af Cleveland Cavaliers í undanúrslitum Austurdeildarinnar.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.