Erlent

Segir að allir fót­bolta­strákarnir hafi sam­þykkt að fara inn í hellinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Strákarnir á blaðamannafundinum sem nú fer fram.
Strákarnir á blaðamannafundinum sem nú fer fram. vísir/ap

Hinn 25 ára gamli Ake, fótboltaþjálfari strákanna tólf sem festust í helli í norðurhluta Taílands, ásamt þjálfaranum í síðasta mánuði, segir að allir strákarnir hafi samþykkt að fara inn í hellinn. Þeir hafi þó aldrei farið inn í helli áður og þá fóru þeir ekki þangað inn því einn strákanna átti afmæli, eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem nú stendur yfir með þjálfaranum og strákunum tólf en þeir ræða nú við fjölmiðla í fyrsta sinn eftir að þeim bjargað úr hellinum í síðustu viku. Þar höfðu þeir dvalið í um tvær vikur en þeir komust ekki út úr hellinum vegna mikilla rigninga sem fylltu hellinn af vatni.

Þjálfarinn sagði að þeir hefðu séð vatn koma inn í hellinn þegar þeir voru tiltölulega nýkomnir þangað inn. Þeir hafi þá íhugað að yfirgefa hellinn en komist að því á leiðinni til baka að þeir væru innilokaðir.

„Við þurftum að synda, við getum allir synt. Það er ekki rétt að við séum ósyndir því eftir fótboltaæfingar þá syndum við,“ sagði Ake. Þeir hafi hins vegar ekki gert sér grein fyrir því hversu vatnsyfirborðið myndi hækka mikið.

Enginn matur, bara vatn

Ake sagðist hafa fullvissað drengina um að þeir væru ekki týndir og að þeir myndu reyna að komast út með reipum. Þá reyndu þeir að grafa sig út úr hellinum til að byrja með.

„Ég sagði við þá að vera ekki hræddir því vatnið myndi minnka á morgun. Við sáum vatn leka meðfram veggjum hellisins og héldum okkur nálægt því. Á þeim tímapunkti vorum við ekki hræddir því við töldum að vatnsyfirborðið myndi lækka og að einhver myndi koma og bjarga okkur,“ sagði Ake.

Hann kvaðst hafa reynt að halda drengjunum kátum og reynt að finna vatn úr veggjunum sem hægt væri að drekka. Það var hreint.

„Við höfðum engan mat svo við drukkum bara vatn,“ sagði einn drengjanna.  

Útsendingu Sky frá blaðamannafundinum má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.