Enski boltinn

Nýr bakvörður Man Utd missir af fyrstu leikjum tímabilsins

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Diogo Dalot
Diogo Dalot vísir/getty
Portúgalski bakvörðurinn Diogo Dalot mun missa af fyrstu umferðum ensku úrvalsdeildarinnar vegna hnémeiðsla.

Dalot gekk til liðs við Manchester United fyrr í sumar og borgaði enska stórveldið 19 milljónir punda fyrir þennan 19 ára gamla varnarmann sem kom frá Porto í heimalandinu.

Dalot meiddist á hné undir lok síðustu leiktíðar hjá Porto og er enn að jafna sig á þeim meiðslum. Hann fór með Man Utd til Bandaríkjanna en æfir einn vegna meiðslanna.

„Dalot er meiddur. Við vissum það en vildum samt taka hann með til Bandaríkjanna. Endurhæfingin gengur vel og hann ætti að geta æft með liðinu þegar við komum aftur til Englands.“

„Hann verður ekki leikfær í fyrstu leikjum tímabilsins en ég vona að hann verði klár í september,“ segir Jose Mourinho, stjóri Man Utd.

Man Utd leikur þrjá leiki í ensku úrvalsdeildinni í ágúst, þann fyrsta gegn Leicester föstudaginn 10.ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×