Innlent

Pia segir gagnrýni þingmanna fáránlega og til skammar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, á fundinum í gær.
Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, á fundinum í gær. fréttablaðið/anton brink

Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, segir gagnrýni íslenskra þingmanna á þátttöku hennar á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í gær fáránlega og til skammar.

Þetta kemur fram í frétt á vef danska miðilsins TV2 þar sem rætt er við Piu og Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem gekk af hátíðarfundinum þegar sú fyrrnefnda tók til máls.

Pia segir þingmennina augljóslega ekki hafa hugmynd um hvað er að gerast í heiminum eða í systurflokki þeirra í Danmörku, og vísar þar væntanlega til sósíal-demókrata sem hafa tekið upp harðari stefnu í málefnum innflytjenda í landinu.

Píratar sniðgengu hátíðarfundinn á Þingvöllum í gær vegna þátttöku Piu og þá voru ýmsir þingmenn með barmmerki sem á stóð Nej, til racisme en Pia er umdeild vegna stefnu flokks hennar í málefnum innflytjenda og orðræðu hennar gegn fjölmenningu og íslam.

„Það er rétt að Píratar tóku ekki þátt en ég get í raun ekki gert að því þótt sumir séu illa upp aldir og sjái ekki að þegar þú ert að bjóða forseta danska þingsins, en ekki mér sjálfri persónulega, þá er þetta í raun ekki niðurlæging fyrir mig,“ segir Pia sem kveðst ekki hafa tekið mikið eftir gagnrýni eða mótmælum á þátttöku hennar á fundinum.

Helga Vala segir í samtali við TV2 að hún hafi ekki verið að sýna andstöðu sína við danska þingið, dönsku ríkisstjórnina eða dönsku þjóðina, heldur hafi hún verið að láta í ljós hvað henni þætti um það hvernig Pia hefur breytt viðhorfi til innflytjenda og flóttamanna á danska þinginu.

„Ég einfaldlega skil ekki hvers vegna hún ætti að vera ræðumaður á svona viðburði,“ segir Helga Vala á vef TV2.


Tengdar fréttir

Pia í skýjunum með Íslandsferðina

Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, segist vera stolt að hafa fengið að taka þátt í hátíðarþingfundinum, sem haldinn var á Þingvöllum í gær í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslendinga.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.