Innlent

Saga þjóðhátíða á Þingvöllum: Allir velkomnir nema Jón Sigurðsson

Hátíðahöld á Þingvöllum hafa verið rammíslensk hefð í lengri tíma en eitthvað er farið að fjara undan áhuga landsmanna á slíkum mannamótum. Við rekjum Þingvallahátíðir aftur til ársins 1874 í þessari fréttaskýringu.

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Góður staður til að halda stóra hátíð? Vísir/Getty
„En svo er spurningin, á hátíðin að haldast árlega? ... Sú hugsun þyrfti einmitt að vera vakandi, að ætíð væri fyrir hendi ný hátíð með nýrri gleði. Til þess að vissa væri um þetta, kynni að vera rétt að halda ekki Þingvallahátíð nema með eins eða jafnvel tveggja eða þriggja ára millibili.“ – Björn Þórðarson, Eimreiðin, 1923

Það er ljóst af þessum skrifum og öðrum að mikil bjartsýni og eftirvænting ríkti fyrir hátíðina á Þingvöllum 1930 og menn héldu að um reglulegan viðburð yrði að ræða.

Í aðdragandanum minntist fólk þjóðhátíðarinnar 1874 í hillingum. Hennar er minnst með miklum gífuryrðum í ritum nokkrum áratugum eftir að hún var haldin og má ætla að töluverður fortíðar-ljómi hafi þá strax verið farinn að umlykja minninguna.

Ritar Björn Þórðarson 1923:

„Næstu áratugina rifjaði fólkið upp í endurminningunni þessa dýrðlegu hátíð á Þingvelli og sagði börnum sínum sem glegst frá þeim viðburði… Og engin almenn hátíð síðan kemst í hálfkvisti við hana að minningarljóma.“

Hátíðin markaði vissulega tímamót. Árið 1874 fór saman 1000 ára minningarhátíð landnáms og fyrsta konungsheimsóknin. Það var fyrsta raunverulega þjóðhátíð í sögu landsins og kannski má segja að tónninn hafi verið settur strax í upphafi. Kristján IX. Danakonungur var heiðursgestur á Þingvöllum en Jóni Sigurðssyni, fulltrúa íslensku þjóðarinnar og sjálfstæðisbaráttunnar, var ekki boðið.

Samt var þetta allt saman ljúft í minningunni stuttu síðar. Séra Ólafur Ólafsson rifjaði hátíðina upp í grein í Morgunblaðinu árið 1924 og vildi meina að þarna hafi orðið þáttaskil í Íslandssögunni:

„…þjóðhátíðarárið 1874 er án alls efa eitt allra merkilegasta árið í allri sögu íslensku þjóðarinnar. Með því ári hefst nýr og merkilegur kafli í Íslandssögu, þá byrjar nýr tími, hefst nýtt og merkilegt tímabil með nýrri þjóðarvakning og nýjum framfarahug og framfaratilþrifum á nærfelt öllum sviðum þjóðlífsins.“

Það verður að teljast líklegt að þessi sýn sé eitthvað lituð af þeirri staðreynd að Ólafur var einmitt að komast til manns á sama tíma, hann var 18 ára þegar þjóðhátíðin fór fram. Engu að síður var auðvitað um mikil tímamót að ræða.

Eldra fólk hélt að Ragnarök væru runnin upp þegar skotið var úr fallbyssum skipanna 1874.Melton Prior

„Alt ætlaði ofan að ríða í þeim Þórdunum“

Ákveðið var að allsherjarþjóðhátíð yrði á Þingvöllum 5.-7. ágúst og var öllum landsmönnum frjáls að koma. Einnig var sérstakur Þingvallafundur á sama tíma fyrir kjörna menn úr öllum sýslum landsins. Prestar voru hins vegar beðnir um að halda guðsþjónustur í kirkjum sínum fyrir þá sem ekki áttu heimangengt.

Þungamiðja hátíðarinnar var að kóngurinn sjálfur kæmi færandi hendi með stjórnarskrá.

Að morgni 30. júlí bárust þær fréttir með ensku skipi að konungsskipin væru komin inn um Reykjanes og væru á leið til hafnar. Séra Ólafur Ólafsson fríkirkjuprestur segir frá því sjónarspili sem fylgdi í grein sem birtist 1924:

„Var það skemtileg sjón, er þau sigu hjer inn sundin; var Jótland mikið skip og frítt, og bar hátt yfir sjó, eins og Orminn langa. Þegar skipin sigu inn Engeyjarsund, þá hófu útlendu herskipin, sem hjer voru þá fyrir, skothríð mikla til að heilsa konungi; reið sænska herskipið Norrköping á vaðið; var sem alt ætlaði ofan að ríða í þeim Þórdunum, og nötruðu rúður í gluggum, en gamalt fólk hugði heimsendi kominn.“

Nokkur skip komu til landsins af þessu tilefni, þar á meðal 9 eða 10 herskip frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi. Þá segir af fimm stórauðugum Bandaríkjamönnum sem tóku skip á leigu í Skotlandi og sigldu hingað á sama tíma.

Auk þess eru nefnd fleiri erlend fyrirmenni, skáld, einn af upphafsmönnum sæstrengsins yfir Atlantshafið og sonur William Gladstone, forsætisráðherra Bretlands.

Hátíðahöldin hófust formlega í Reykjavík 2. ágúst. Fánum var slegið upp hvar sem hægt var og mikil hátíðarstemning ríkti í bænum.

Eftir guðsþjónustu var farið með heiðursgestina efst upp í Öskjuhlíð af öllum stöðum. Í títtnefndri grein séra Ólafs Ólafssonar segir að þetta staðarval hafi verið mjög óheppilegt:

„Hefði þetta mátt vel fara, ef veður hefði verið kyrt allan daginn; en því var ekki að heilsa; síðla dags hvesti allmikið og urðu að því óskemmtileg veisluspjöll; því fólk ætlaði bókstaflega að kafna í moldryki.“

Gestirnir börðust blindandi í gegnum moldviðrið til að komast upp á toppinn þar sem búið var að ryðja og slétta stóran blett. Það voru stór mistök. Segir Ólafur:

„Mjög spillti moldrokið ánægju manna þennan dag; voru flestir orðnir móalóttir og móskjóttir, og litföróttir á ýmsa lund, er á hátíðastaðinn var komið; en ekki batnaði, þó þangað væri komið; þá tók nú fyrst í hnúkana. Allur hátíðarvöllurinn var nýrutt moldarflag, og rauk upp úr honum eins og þurri reiðingstorfu við hverja vindhrynu.“

Hversdagsleikinn í kringum aldamótin 1900.Frederick W.W. Howell
Þetta gat vart orðið íslenskara.

Ekki tók betra við þegar sjálfan kónginn bar að garði, heldur veðurbarinn.

„Þegar konungur kom, dundi við skothríð mikil. Varð þá það hörmulega slys, að tveir hermenn af herskipinu Fylla skutu af sjer sína hendina hvor, að miklu leyti; þeir brugðust vel og karlmannlega við sárum sínum…“

Þegar hátíðin barst loks til Þingvalla þann 5. ágúst var búið að reisa þar mikið af tjöldum og talið var að ekki hefði verið jafnfjölmennt á Þingvöllum frá hólmgöngu Jóns Arasonar og Ögmundar Pálssonar.

Hátíðin sjálf á Þingvöllum var stórtíðindalaus. Viðstaddir hlýddu á ávörp og hylltu konung, svo kom rigning og allir fóru heim. 

Minningin um þjóðhátíðina 1874 lifði þó áfram góðu lífi og magnaðist í seinni frásögnum.

„Alt er svo hversdagslegt sem orðið getur“

Hátíðin 1874 var flestum hugleikin þegar ákveðið var að ráðast í að skipuleggja nýja hátíð til að minnast þess að árið 1930 væru þúsund ár liðin frá stofnun Alþingis á Þingvöllum.

Töluvert vesen hafði fylgt því að festa sérstakan hátíðisdag í sessi árin á undan. Menn fögnuðu ýmist 2. ágúst, 1. desember, 17. júní eða 19. júní. Fyrir því eru ástæður sem verða ekki raktar hér. Í grein Björns Þórðarsonar frá 1923 segir að fyrir vikið sé lítið sem ekkert um að vera á þessum dögum.



„Það sem mest ber á eru glannalegar auglýsingar, festar upp á götuhornum, prentaðar á heilli og hálfri síðu í dagblöðunum og hrópaðar af drengjum á götunum, um að mikið verði um dýrðir á Íþróttavellinum. Dýrðin er þá sú, að stjórn vallarins hefir fengið einhvern til að tala, hann talar ef til vill vel, en fæstir, sem á völlinn koma, heyra mál hans.

Innan girðingarinnar ráfar strjálingur af fólki um forina og í pollunum, ef rignir, en með öll vit full af ryki ef þurkur er; eða fólkið stendur í höm og hefst ekki að… Hátíðabrigða verður hvergi vart, alt er svo hversdagslegt sem orðið getur.“

Svo virðist sem Íslendingar hafi tekið við sér á næstu árum og skipulagt nokkuð veglega hátíð 1930. Í aðdragandanum skrifar Ásgeir Ásgeirsson, forseti Alþingis, í Skinfaxa í apríl 1930:



„Hugur milljónanna, sem sjaldan eða aldrei hafa heyrt Íslands getið, hvarflar hingað um stund, meðan hér er minnst einnar hinnar elztu tilraunar til að láta stjórnast meir að ráðum hinna vitrustu manna en af vöðvastyrk hinna hraustustu. Í minningu þúsund ára þingræðis safnast þúsundirnar til Þingvalla.“


Árið 1930 stóð Daníel nokkur Daníelsson fyrir því að endurvekja þennan löngu horfna sið og skipulagði hestaat á sjálfri Alþingishátíðinni, segir í grein Lemúrsins.Berit Wallenberg
Það var kannski ofsögum sagt að heimsbyggðin fylgdist spennt með setningu þjóðhátíðar á Þingvöllum.

Íslendingar létu sig hins vegar ekki vanta á staðinn, talið er að allt að 40 þúsund manns hafi sótt hátíðina sem myndi gera um 37% þjóðarinnar á þeim tíma.

Hátíðin var sett af Kristjáni X. þann 26. Júní (dagsetningarnar voru enn í ruglinu) og þótti heppnast vel. Danir notuðu tækifærið til að skila Valþjófsstaðahurðinni.

Fyrir utan sjálfa hátíðina á Þingvöllum voru margir samhliða viðburðir í höfuðborginni og víðar. Þar má nefna umfangsmikla listasýningu við Austurvöll þar sem Listamannaskálinn reis síðar og „Skáli“ Alþingishússins stendur nú.

Margir dáðustu listamenn þjóðarinnar sýndu verk sín við þetta tækifæri, þar á meðal Ásmundur Sveinsson, Einar Jónsson, Jóhannes Kjarval, Júlíana Sveinsdóttir og margir aðrir.

Ekki má heldur gleyma hestaatinu sem fór fram á Þingvöllum og átti eftir að vekja nokkrar deilur eins og rakið er í grein Lemúrsins um þá merkilegu iðju. Þar leiddu menn bókstaflega saman hesta sína svo mörgum þótti nóg um.

Hrakfallaspár um veðurofsa rættust ekki.Valgerður Tryggvadóttir / Lemúrinn
Sunnudaginn 29. júní 1930 birtir Morgunblaðið grein um Alþingishátíðina á forsíðu sinni en hátíðinni var þá einmitt að ljúka.

Þar kemur fram að miklar hrakfallaspár um veðurofsa og vosbúð rættust ekki. Bílflutningar gengu greiðar en búist var við, margir höfðu spáð því að Þingvallavegur yrði ófær þar sem vætusamt var fyrr um sumarið.

Af greininni má skilja að veðrið hafi verið mönnum mjög hugleikið í aðdragandanum.

„Í öllum undirbúningi hátíðarinnar hefir einna mest borið á því, að hátíð þessi ætti að verða einskonar auglýsing fyrir landið — og það með tvennum hætti. Vegna hins almenna umtals í heimsblöðunum í tilefni af hátíðinni og með því að hinir erlendu gestir, og þá einkum boðsgestir þeir, er hingað kæmu, kyntust landi og þjóð, og hefðu sem besta sögu að segja af hvoru tveggja.

Stórrigning eða annað illviðri gat spilt hátíðinni gersamlega. Teflt var ákaflega í tvísýnu. En sú gifta fylgdi þjóðinni, að veður var yfirleitt hagstætt, og erlendir gestir vorir fengu hin bestu kynni af landi og þjóð, sem hægt var við að búast. Smávægilegar misfellur sem fyrir komu, voru alveg hverfandi í þeim heildarsvip af hátíðinni, sem geymist í hugum manna.“

Og svo virðist sem allt hafi farið friðsamlega fram. Sérstakt sjúkratjald var reist en það þurfti aðeins að sinna einum fótbrotnum trésmið.

„Hvergi sást missætti, hvergi óánægja. Það var eins og öll þjóðin væri alt í einu komin á eitt heimili þar sem ríkti friður og eining, ánægja og lífsfjör í laukrjettri temprun.“

Var það mál manna að þetta þyrfti að endurtaka og það sem fyrst.

„Eftir þessa Þingvallahátíð er það augljóst mál, að við Íslendingar verðum að hugsa til þess að halda þar alþjóðarsamkomur við og við, á nokkurra ára fresti. Samkomur þessar verða að vera sem þessi hátíð, fyllilega utanvið flokkadrætti í landinu. Þar á að þagna „dægurþras og rígur."

Stjórn sambands austur-húnvetnskra kvenna ályktar gegn Þingvallahátíð

Íslendingar þurftu aðeins að bíða í 14 ár eftir næstu stóru hátíð á Þingvöllum en þá var ærlegt tilefni. Stofnun lýðveldisins fór þá fram á Þingvöllum á 17. júní (loks hafði náðst samstaða um að miða við fæðingardag Jóns Sigurðssonar) og kom töluverður mannfjöldi saman á Völlunum við Öxará.

Gegnsósa gestir við stofnun lýðveldisins árið 1944.
Veðrið var hins vegar með versta móti í þetta sinn; bæði rok og rigning. Sveinn Björnsson var kjörinn forseti á Lögbergi og þar fór síðan fram fyrsti ríkisráðsfundur lýðveldisins. Forsetinn staðfesti um leið lög um íslenska þjóðfánann og skjaldamerkið.

Ekki virðist hafa verið mikið húllumhæ á Þingvöllum þennan dag en gegnsósa og kaldir hátíðargestir fóru heim vitandi að þeir tóku þátt í einum stærsta viðburði Íslandssögunnar.

Sjá einnig:Sjálfstæðir Íslendingar: Lýðveldið á tímamótum eftir Guðna Th. Jóhannesson.

Næsta stóra samkoma á Þingvöllum var 1974 þegar 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar var fagnað. Átti það að vera einskonar endurtekning á fundinum 1874 fyrir utan moldviðrið, konunginn og limlestingarnar.

Hátíðinni var sjónvarpað í fyrsta sinn og sem betur fer var sólin á sínum stað í þetta sinn. Hátíðin var talin sú fjölmennasta í sögu landsins, allt að 60 þúsund hafi lagt leið sína til Þingvalla.

Margir óttuðust að hátíðin 1974 breyttist í drykkjusvall líkt og tíðkast á útihátíðum. ÁTVR var tímabundið lokað fyrir vikið.Gunnar V. Andrésson
Dagur segir í forsíðufrétt að framkoma samkomugesta hafi verið allt önnur og betri en tíðkaðist á fjöldasamkomum almennt.

Dagskráin var kannski ekki sérlega krassandi en það skipti ekki öllu fyrst veðrið var gott. 350 fulltrúar sýslna og kaupstaða landsins gengu yfir Öxarárbrú undir fánum sínum, þingmenn gengu fylktu liði á Lögberg, ungmenni sýndu fimleika, hraustmenni kepptu í glímu, sinfóníuhljómsveitin spilaði og 200 manna karlakór söng.

Það þrátt fyrir að hátíðin hafi nánast verið blásin af.

Í aðdragandanum, 1973, komu upp deilur á Alþingi um þetta kostnaðarsama verkefni og byggingu sögualdarbæjar. Alþýðubandalagið taldi þetta mjög misráðið, Bjarni Guðnason þingmaður (þá utan flokka) kvaðst algjörlega á móti því að smala almenningi á yfirhlaðna hátíð á Þingvöllum.

Töluvert fleiri áttu eftir að leggja orð í belg. Ef skoðuð eru dagblöð þessa tíma má t.d. sjá frétt í Tímanum undir fyrirsögninni: „Enn ein samþykktin: Enga Þingvallahátíð“ og vísar til þess að allir og amma þeirra voru á þessum tíma búnir að álykta um hvort hátíðin færi fram á Þingvöllum eða ekki.

Í fréttinni segir langþreyttur blaðamaður frá því að Stjórn Sambands austur-húnvetnskra kvenna hafi lýst sig sammála tillögu skólastjóra á Reykjavíkursvæðinu um að hætta við samkomuna með öllu.

Í tilkynningu sambandsins má greina ástæðuna:

„Með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur af hópsamkomum undanfarin ár, verður að teljast óæskilegt að stefna tugþúsundum manna saman á Þingvöllum.“

Þetta og vísunin í tillögu frá skólastjórum bendir til þess að fólk hafi fyrst og fremst óttast að úr þessu yrði eitt allsherjar fyllerí.

Fyrir vikið var brugðið á það ráð að loka skyndilega öllum áfengisverslunum landsins án alls fyrirvara. Var það gert nokkrum dögum fyrir hátíðina til að tryggja að ekki væri nógu áfengi í almannaeigu til að hægt væri að detta í það á Þingvallahátíðinni.

Eins og fyrr segir gekk það eftir og framkoma gesta almennt talin til sóma þrátt fyrir einstaka undantekningar. Herstöðvaandstæðingar notuðu tækifærið til að mótmæla við Almannagjá og voru handteknir.

Mörg dæmi eru um að fólk hafi orðið að hírast mikinn hluta dagsins í bílum sínum, sagði í frétt DV um umferðaröngþveitið á Þingvöllum 1994.

Umferðaröngþveiti og tilefni til fagnaðar

Tuttugu árum síðar, 1994, var ákveðið að endurtaka leikinn til að minnast hálfrar aldar afmæli lýðveldisins.

Aðsókn var góð. Mjög góð. Raunar var aðsókn alltof góð.

Svo góð var hún að hátíðin gekk um tíma undir nafninu Þjóðvegahátíðin þar sem þúsundir gesta sátu fastir í bílum sínum á milli Reykjavíkur og Þingvalla meirihluta dags. Salernisaðstaða var heldur ekki allskostar fullkomin.

Deilur risu um hver bæri ábyrgð á umferðaröngþveitinu og eftir þetta var hávær umræða um hvort það væri yfir höfuð gáfulegt að stefna allri þjóðinni á Þingvelli á sama tíma.

Sex árum seinna var samt aftur ákveðið að halda stórhátíð á Þingvöllum, í þetta sinn til að fagna þúsund ára afmæli kristnitökunnar á Íslandi.

Almennt fór gott orð af þeirri hátíð þrátt fyrir að mæting hafi verið töluvert minni en gert var ráð fyrir. Þjóðvegahátíðin var fólki enn í fersku minni og óttinn við annað eins öngþveiti latti fólk til mætingar.

Umferðin gekk mun betur fyrir sig, kannski ekki síst þar sem hátíðin náði yfir tvo daga en ekki bara einn. Þúsundir Íslendinga létu sjá sig þar í lengri eða skemmri tíma og hlýddu á tónlist og helgihald.

Bjarni Benediktsson flytur ræðu á nýafstöðnum hátíðarþingfundi 18. júlí 2018.Vísir/Einar Árna
Það verður að segjast eins og er að umgjörð hátíðarinnar sem fór fram á Þingvöllum þann 18. júlí 2018 var ekki stórbrotin.

Byggður var pallur á besta stað til að þingmenn gætu haldið þingfund undir berum himni en hann var fyrst og fremst formsins vegna. Eins og frægt er orðið ávarpaði forseti danska þingsins samkomuna og varð það til þess að einn þingmaður Samfylkingarinnar stóð upp og fór en Píratar afboðuðu komu sína með öllu.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var gert ráð fyrir að sex til sjö þúsund manns myndu leggja leið sína til Þingvalla við þetta tilefni.

Hátíðin var hins vegar lítið auglýst og hana bar upp á dag sem fæstir tengja við þjóðhátíð. Þess utan var engin dagskrá fyrir almenning og umferð um þjóðgarðinn var takmörkuð.

Uppákoman kostaði allt að 80 milljónir króna sem væri nokkuð vel sloppið ef um stóra þjóðhátíð væri að ræða. Dræm mæting, einkennileg umgjörð og ósamstaða í aðdragandanum vörpuðu hins vegar slíkum skugga á viðburðinn að óhætt er að fullyrða að málið sé ekki útrætt.

Hvenær næsta hátíð verður á Þingvöllum er erfitt að segja en tilefnin eru mörg.

Eitt þeirra gæti verið það að á næsta ári, nánar tiltekið 2. maí, verða t.d. rétt 100 ár liðin frá því að fyrsta stéttarfélag faglærðra kvenna á Íslandi var stofnað: Ljósmæðrafélag Íslands.


Tengdar fréttir

Hátíðarþingfundur á Þingvöllum í hnotskurn

Ræðumenn á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í dag voru allir sammála um að fullveldissamningurinn við Dani árið 1918 hafi verið merkast áfanginn í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Heldur færri gerðu sér ferð til Þingvalla til að fylgjast með fundinum en búist var við og settu mótmælendur sinn svip á hátíðarhöldin.






×