Enski boltinn

Yfirmaður knattspyrnumála hjá Roma: „Ekki metnaðarleysi að selja Alisson“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alisson í leik með Brasilíu á HM.
Alisson í leik með Brasilíu á HM. vísir/getty
Monchi, yfirmaður knattspyrnumála hjá Roma, segir að selja markvörðinn Alisson til Liverpool sé ekki metnaðarleysi, heldur vel ígrunduð ákvörðun.

Alisson gekk í raðir þeirra rauðklæddu í gærkvöldi en þá staðfesti Bítlaborgarliðið það sem hafði legið lengi í loftinu.

Margir hafa rætt um hvort þetta sé metnaðarleysi hjá Roma að selja alltaf sína bestu leikmenn en Monchi er ekki á sama máli.

„Þegar að það koma inn tilboð með hárri upphæð þarftu að íhuga það. Við skoðuðum það jákvæða og neikvæða og ákváðum að ræða við Liverpool,” sagði Monchi.

„Að selja Alisson sýnir ekki metnaðarleysi. Fyrir mig er metnaður að gera það rétta eftir að hafa hugsað allt til þaula,” bætti Monchi við en margir stuðningsmenn Roma eru ekki ánægðir með stöðu mála.

„Ég skil það sem stuðningsmennirnir eru að hugsa. Ég vil láta þá vita að við erum að bá til sterkt lið. Ég kom hingað til að búa til sterkt lið, ekki á einu ári heldur til margra ára og ég er 100% viss um að það takist.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×