Erlent

Gætu þurft að vera mánuði í hellinum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Björgunaraðgerðum er ekki nærri því lokið.
Björgunaraðgerðum er ekki nærri því lokið. Vísir/EPA
Óttast er að taílensku fótboltastrákarnir, sem fundust í gær við mikinn fögnuð heimsbyggðarinnar, gætu þurft að dvelja í hellinum í nokkra mánuði í viðbót.

Hellirinn er á kafi í vatni og hafa björgunarsveitir reynt árangurslítið að dæla vatni úr hellinum. Því sé aðeins tvennt í stöðunni; annað hvort að bíða eftir því að vatnið hverfi af sjálfsdáðum eða kenna drengjunum tólf og þjálfaranum þeirra að kafa svo þeir geti synt út úr hellinum. Sem stendur eru þeir allir ósyndir.

Síðari valmöguleikinn er talinn einkar hættulegur enda sé niðamyrkur í hellinum, sem er á köflum gríðarlega þröngur. Það segi sýna sögu að það hafi tekið þrautþjálfaða alþjóðlega sveit kafara næstum 9 daga að komast til drengjanna.

Sama hvor valmöguleikinn verður ofan á gera sérfræðingar ráð fyrir því drengirnir muni þurfa að vera í hellinum í einhverja mánuði í viðbót.

Sjá einnig: Fótboltastrákarnir í hellinum fundnir heilir á húfi

Unnið er að því að ferja fjögurra mánaða birgðir af mat og súrefni ofan í hellinn handa drengjunum og þjálfaranum. Að sama skapi verða sérþjálfaðir læknar sendir til þeirra til að kanna líkamlegt og andlegt ástand.

Þá vinna tælensk yfirvöld að því að koma símalínu niður til hópsins, svo að þeir geti rætt við foreldra sína sem ekkert hafa heyrt frá þeim í níu sólarhringa.

Á meðan munu aðrir hópar björgunarsveitarmanna leita að öðrum útgönguleiðum. Þá hafa verið viðraðar hugmyndir um að bora sig niður til hópsins. Sú leið er þó talin hættuleg enda liggi ekki fyrir hversu traustur hellirinn er og kynni hann því að hrynja ef ítrustu varúðar er ekki gætt.

Hér að neðan má sjá myndband frá björguninni


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×