Erlent

Sonur Tinu Turner fannst látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Tina Turner eignaðist Craig Raymond Turner þegar hún var átján ára gömul.
Tina Turner eignaðist Craig Raymond Turner þegar hún var átján ára gömul. Vísir/Getty
Elsti sonur bandarísku söngkonunnar Tinu Turner, Craig Raymond Turner, er látinn eftir að hafa svipt sig lífi. Variety, Hollywood Reporter og fleiri miðlar greina frá því að hann hafi fundist látinn á eigin heimili í Los Angeles í gær. Turner varð 59 ára gamall.

Ed Winter, talsmaður lögreglu í Los Angels, staðfestir að maðurinn hafi verið úrskurðaður látinn á vettvangi og að allt benti til að hann hafi fallið fyrir eigin hendi. Enn er þó að bíða þar til niðurstaða réttarkrufningar liggur fyrir.

Móðir hans, hin 78 ára Tina Turner, hefur ekki tjáð sig opinberlega um fráfall sonar síns. Hún eignaðist Craig Raymond þegar hún var átján ára gömul með saxófónleikaranum Raymond Hill sem nú er látinn. Þegar hún giftist Ike Turner ættleiddi hann drenginn.

Ike og Tina eignuðust saman drenginn Ronnie Turner, sem nú er 57 ára. Hjónabandi Ike og Tinu lauk árið 1978, en Ike lést árið 2007.

Tina Turner giftist svo tónlistarframleiðandanum Erwin Bach árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×