Erlent

Brexit-herferðin talin hafa brotið kosningalög

Kjartan Kjartansson skrifar
Vote Leave var opinber herferð fyrir útgöngu Breta úr ESB og fékk framlög frá breska ríkinu.
Vote Leave var opinber herferð fyrir útgöngu Breta úr ESB og fékk framlög frá breska ríkinu. Vísir/EPA
Búist er við því að kjörstjórn Bretlands komist að þeirri niðurstöðu að Vote Leave, opinber herferð til stuðnings útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, hafi brotið kosningalög fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2016. Herferðin hafi meðal annars eytt meira fé í baráttuna en heimilt er.

Niðurstaða rannsóknar kjörstjórnarinnar hefur ekki verið birt opinberlega ennþá. Þær hafa hins vegar verið sendar Vote Leave til umsagnar. Herferðin birti andsvör sín við ásökunum í skýrslu kjörstjórnarinnar.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að samkvæmt þeim svörum hafi kjörstjórnin komist að þeirri niðurstöðu að Vote Leave hafi skilað ónákvæmu yfirliti um fjárútlát herferðarinnar, reikninga og kvittanir hafi vantað, herferðin hafi eytt fé umfram lagaheimild og hafi ekki virt lögbundin tímamörk.

Þá er fullyrt í skýrslunni að herferðin hafi unnið með minni herferð fyrir Brexit, BeLeave. Dominic Cummings, framkvæmdastjóri Vote Leave, hafi mælt með 600.000 punda framlagi til þeirrar herferðar á síðustu vikum kosningabaráttunnar. Samkvæmt breskum kosningalögum mega herferðir af þessu tagi aðeins vinna lauslega saman en ekki vinna eftir sameiginlegri áætlun.

Vote Leave hefur hafnað ásökununum og sakar Matthew Elliot, fyrrverandi framkvæmdastjóra herferðarinnar, kjörstjórnina um að virða ekki réttláta málsmeðferð. Hann hefur skilað 500 blaðsíðna skýrslu til nefndarinnar þar sem hann ber ásakanirnar til baka.

Kjörstjórnin segist munu fara yfir athugasemdir Vote Leave og taka þær til greina eftir atvikum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×