Viðskipti innlent

Telur ákvörðun PFS marka tímamót á fjarskiptamarkaði

Kjartan Kjartansson skrifar
Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitunnar.
Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitunnar. Vísir/GVA
Forstjóri Gagnaveitu Reykjavíkur telur að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um að Síminn hafi brotið fjölmiðlalög marki tímamót í samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði. Mikilvægt sé fyrir neytendur að brotum Símans ljúki sem fyrst.

PFS tilkynnti um þá ákvörðun sína að Síminn hefði brotið lög með því að beina viðskiptum ólínulegrar dagskrár Sjónvarps Símans til Mílu, dótturfélags síns í gær. Síminn stöðvaði dreifingu á tímaflakki og frelsi hjá öðrum fjarskiptafyrirtækjum í október árið 2015. Síðan þá hefur þjónustan aðeins verið í boði í gegnum dreifikerfi Símans og nær eingöngu í gegnum net Mílu.

Sýn, móðurfélag Vodafone, og Gagnaveita Reykjavíkur kvörtuðu til PFS. Síminn var sektaður um níu milljónir króna vegna brotsins en hámarks sektarupphæð samkvæmt lögum er tíu milljónir.

Í tilkynningu frá Gagnaveitu Reykjavíkur er haft eftir Erling Frey Guðmundssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, að mikilvægt sé að lögbroti Símans linni og neytendur fái að njóta valfrelsis sem fjölmiðlalögum er ætlað að tryggja þeim. Niðurstaða PFS stuðli að meiri samkeppni sem neytendur njóti góðs af.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, sagði í tilkynningu í gær að ákvörðun PFS væri skaðleg fyrir samkeppni á markaði og ynni gegn nýsköpun í íslenskri sjónvarpsframleiðslu.

Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar, sagði að fyrirtækið ætlaði að kanna hvort það ætti rétt á skaðabótum vegna brots Símans. Sagði hann niðurstöðuna sigur fyrir neytendur.

Vísir er í eigu Sýnar hf.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×