Innlent

VR: Ekki verið erfiðara að kaupa fyrstu íbúð í 20-30 ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Laun ungs fólks halda ekki í við hækkun fasteignaverðs og hlutfall leigu af launum hefur hækkað um 80 prósentustig frá 1997.
Laun ungs fólks halda ekki í við hækkun fasteignaverðs og hlutfall leigu af launum hefur hækkað um 80 prósentustig frá 1997. Vísir/Anton Brink
Útborguð laun fólks á aldrinum 25-34 ára hefur ekki haldið í við hækkun verðs á fjölbýli og æ erfiðara verður fyrir ungt fólk á leigumarkaði að leggja fé til hliðar fyrir íbúð. Þetta kemur fram í nýjasta efnahagsyfirliti VR en félagið telur aldrei hafa verið erfiðara að kaupa fyrstu íbúð á Íslandi svo langt sem gögn ná.

Staðan er sögð hafa versnað undanfarin tvö ár frá síðustu úttekt VR en þá var niðurstaðan að ekki hefði verið erfiðara að eignast íbúð undanfarin tuttugu ár en þá. Frá árinu 2012 hafi laun ungs fólks ekki haldið í við hækkun íbúðaverðs.

Árið 2017 hafi hlutfall verðs á fjölbýli af útborguðum launum aldurshópsins veri hærra en nokkru sinni fyrr. Þá hafi leiga sem hlutfall af útborguðum launum fólks á aldrinum 25-34 ára hækkað um 80 prósentustig frá 1997 til 2017.

VR segir þó vísbendingar um að leiga hafi almennt ekki hækkað umfram útborguð laun ungs fólks undanfarin tvö ár. Hvað aðgengi að lánsfé varðar telur VR það gott þó að það hafi verið betra frá 2004 til hrunsins.

„Saman leiðir þetta til þess að á undanförnum 2-3 áratugum hefur eflaust aldrei verið erfiðara að festa kaup á fyrstu fasteign en í dag og hefur ástandið versnað undanfarin tvö ár,“ segir í yfirliti VR. Þar er þó tekið fram að ekki sé hægt að fullyrða að aldrei hafi verið erfiðara að kaupa fyrstu eign þar sem gögn ná ekki aftar en á 10. áratug síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×