Innlent

Landspítalinn réð ekki hæfasta umsækjandann

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Bragi var hæfari en manneskjan sem var ráðin.
Bragi var hæfari en manneskjan sem var ráðin. Fréttablaðið/Stefán
Landspítalinn stóð með saknæmum og ólögmætum hætti að því ráðningarferli sem fram fór þegar ráðið var í starf deildarstjóra sálgæslu djákna og presta í júlí 2016. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem presturinn Bragi Skúlason höfðaði gegn spítalanum sem hafði ráðið Rósu Kristjánsdóttur í starfið.

Dómurinn féllst á að Bragi hefði búið yfir meiri menntun en Rósa, þar á meðal á sviði sálgæslu, þó nokkuð lengri starfsreynslu á sviði sálgæslu og umtalsvert meiri stjórnunarreynslu en Rósa. Allir hlutlægir mælikvarðar hafi gefið til kynna að Bragi væri hæfari en Rósa til að hljóta starfið.

Hins vegar telur dómurinn ekki gefið mál að Bragi hefði hlotið starfið umfram aðra tvo hæfa umsækjendur sem boðaðir voru í starfs­viðtal. Héraðsdómur hafnaði því viðurkenningu á skaðabótaskyldu Landspítalans vegna þessa.

Bragi fór einnig fram á fimm milljónir króna í miskabætur en héraðsdómur ákvað að dæma Landspítalann til að greiða Braga 500 þúsund krónur, þar sem málsmeðferð spítalans hafi verið slíkum annmörkum háð að starfsmenn hans teljist hafa vanrækt veigamikil atriði í rannsókn sinni við undirbúning ráðningar deildarstjóra. Sú vanræksla hafi orðið til þess að ekki var litið til þess að Bragi hafi í reynd verið hæfari umsækjandi en sá sem var ráðinn.

Landspítalinn þarf að auki að greiða Braga 1,6 milljónir króna í málskostnað






Fleiri fréttir

Sjá meira


×