Lífið

Sjálfmenntaður hönnuður sem byrjaði nánast óvart að hanna ljós

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Tom Dixon á sýningu sinni hér á landi sem haldin var í samstarfi við LUMEX.
Tom Dixon á sýningu sinni hér á landi sem haldin var í samstarfi við LUMEX. Vísir/Rakel Ósk Sigurðardóttir
Tom Dixon hætti í skóla og er sjálfmenntaður hönnuður. Hann hefur náð flottum árangri á sínum ferli, nú með sitt eigið merki Tom Dixon. Áhugasvið hans liggur víða og hann hefur prófað ýmislegt í gegnum árin, sem hann nýtir allt í hönnunina og er það sem gerir vörur hans einstakar.

Hann heimsækir tíu borgir í heiminum með sýningu sína Around the World og var staddur í sýningarrýminu í Reykjavík á opnunardaginn þegar blaðamaður hitti hann.

„Þegar ég skoða myndaalbúm móður minnar og sé myndina af mér í tíma að læra að gera leirmuni, held ég að það hafi verið augnablikið sem ég uppgötvaði spennuna við að skapa eitthvað,“ segir Dixon um augnablikið þegar hann fann áhugann á hönnun og list. Hann var í kringum 13 ára þegar hann fékk áhuga á efni, framleiðslu og formi.

„Ég var alltaf góður að teikna. Skólinn sem ég stundaði nám í hafði mjög stóra listadeild. Ég þróaðist mjög fljótt í átt að njóta þess að umbreyta efni í skúlptúra, í hagnýta hluti.“

Hann hætti í skóla 18 ára og sér ekki eftir því. Dixon segir að hann hafi snemma verið byrjaður að búa til hluti sem barn, til dæmis úr pappírsmassa, en leirmunir voru eitthvað sem hann varð samstundis mjög góður í. Þetta snerist líka um að ná árangri í einhverju. Í dag er hann hvað þekktastur fyrir ljósin sín.

„Ég held að þetta hafi gerst eiginlega óvart. Ég var að skapa mikið á þessum tíma og hafði séð japönsku pappírsluktirnar frá Gucci. Ég held að ég hafi einn daginn bara þakið ramma með pappír til þess að útbúa ljós. Þetta var mjög fljótleg leið til þess að búa til lýsandi form í þrívídd. Þetta var fyrir löngu síðan og þau seldust mjög vel, en þau voru mjög viðkvæm. Fólk gerði stundum gat á þau við að taka þau úr kassanum en það var samt eftirspurn eftir þeim. Þá fór ég að leita leiða til þess að gera þau með og það var þá sem ég uppgötvaði það að vinna með plast og að móta plast.“

Framleiðslan varð meira iðnaðarleg og Dixon hafði líka mikinn áhuga á skúlptúr og lýsingu. Þar hefur hann orðið mjög vinsæll og eru ljósin hans á heimilum margra fagurkera hér á landi. Vörur Dixon eru því fastagestir á síðum tímarita eins og Hús & híbýli.

Dixon ræddi við blaðamenn um merkið og ferilinn sinn.Vísir/Rakel Ósk Sigurðardóttir

Fyrir ofan húsgögnin

 „Í dag er hægt að vera meira tilraunagjarn í lýsingu því að fólk sér þetta ekki sem eins íhaldssamt eins og önnur húsgögn. Fólk sér þetta sem meira breytilegan hlut sem getur haft mikil áhrif á rýmið og verið mjög sjáanlegur. Svo við höfum verið mjög farsæl í hlutunum sem eru fyrir ofan húsgögnin.“

Dixon segir að ljós geti gert magnaðar breytingar á öllu umhverfi sínu.

„Ef að eitthvað lýsir eitthvað á áhugaverðan hátt getur það haft mikil áhrif stemninguna sem venjuleg húsgögn geta ekki.“

Aðspurður um stærstu áskoranirnar á ferlinum segir Dixon að þær hafi aldrei tengst hönnuninni sjálfri.

„Ég stökk úr þægilegu starfi hjá Habitat með miklar hugmyndir um að geta gert eitthvað mjög svipað sjálfur. En auðvitað er það mjög ólíkt þegar þú hefur ekki 70 verslanir til þess að setja vörurnar þínar í. Það hefur tekið mig mjög langan tíma að skilja hvað það er sem fólk vill kaupa af mér og skilja á hvaða verði. Það er mikið af áskorunum sem felast í því að byrja með eigið merki, sem snúa ekki að hönnuninni sjálfri.“

Nefnir hann sem dæmi verkfræði, löggjöf, tolla, mismunandi rafkerfi eftir löndum og svo framvegis.

„Það er svo margt í kringum hönnunina sem er miklu flóknara en þú ímyndaðir þér.“

Koparljósin frá Tom Dixon hafa verið mjög vinsæl hér á landi síðustu ár.Mynd/Tom Dixon

Hógvær yfir velgengninni

Dixon setti sitt fyrirtæki meira upp eins og fatahönnuður.

„Ég sé um mína eigin vöruþróun, dreifingu og markaðssetningu.“

Hann líkir sýningunni sinni á vissan hátt við tískusýningu. Í tísku er framleiðslan þó meira fast mótuð. Hann segir að það ætti að vera hægt að sauma sama hlutinn í stofunni heima hjá sér, þúsundir eintaka á Ítalíu eða hundruð þúsund eintaka í Víetnam.

„Þetta er alltaf sama tæknin, þetta er alltaf flík. En í því sem ég er að gera, get ég lent í framleiðslumartröð í Póllandi vegna glers eða á Ítalíu vegna marmara. Hver einasti hlutur krefst mismunandi framleiðslusérþekkingar, hver hlutur þarf að vera í ákveðnum kassa og hver hlutur þarf að fara á ákveðinn markað og þarf að vera fluttur þangað með ákveðnum hætti. Það er allt þetta sem er erfiðast, það eru áskoranirnar. Hönnunarhlutinn verður næstum því eins og draumur, mjög auðveldur.“

„Ég hef aldrei litið á sjálfan mig sem farsælan,“ segir Dixon hógvær þegar ég spyr um leyndarmálið á bakvið velgengnina.

„En við höfum sýnileika því að við erum að gera annað en aðrir hönnuðir. Það er enginn annar hönnuður með fyrirtæki af þessari stærð, enn tiltölulega lítið en alþjóðlegt, sem hefur tekið yfir allri sinni hönnun. Það eru mörg merki á stærð við okkar sem bjóða upp á svipað úrval en þau eru oft með marga hönnuði og hönnuðirnir sjá ekki um reksturinn.“

Dixon tók vel í það þegar blaðamaður bað hann að setjast á gólfið á miðri sýningunni í jakkafötunum fyrir ljósmyndarann.Vísir/Rakel Ósk Sigurðardóttir
Notaði hann HAY sem dæmi, sem hann segir frábært merki, en þar eru oftast tuttugu hönnuðir frá mismunandi áttum. Dixon viðurkennir þó að það sé ekki auðvelt að gera allt sjálfur. Hann er ekki aðeins að hanna falleg ljós heldur hannar hann falleg húsgögn og einnig er fáanleg frá honum falleg heimilislína. Svo hefur hann líka farið í samstarf með ákveðnum merkjum í gegnum árin, nú síðast IKEA.

„Stundum eru ákveðnar takmarkanir á því að vera með eigið fyrirtæki og vera með svo marga vöruflokka. Mér leiðist líka mjög auðveldlega og það eru ákveðin takmörk á því hvað við getum gert innan okkar eigin innviða.“

 

Vildi ná til stærri markhóps

Dixon segir að það sé líka mikill lærdómur í því að vinna með sérfræðingum og hjá IKEA séu svo sannarlega sérfræðingar í vöruþróun og alþjóðamörkuðum.

„Við gátum gert eitthvað með IKEA sem við hefðum ekki getað gert sjálf. Ég held að ég sé komin á það stig núna, að fólk ruglar þessu ekki við annað sem ég er að gera.“

Hann segir að það hafi tekið tíma að fjarlægjast Habitat og sanna merkið sitt á dýrari markaði en nú geti hann slakað meira á og leyft sér að fara í samstarf með öðrum. Með IKEA samstarfinu sé hægt að kaupa fallegan hlut á viðráðanlegu verði.

„Ég vildi gera þetta til að gera tilraunir sem ég gæti ekki gert með mitt eigið merki og náð til mun stærri markhóps.“

Rúm-sófinn sem hannaður var í þessu samstarfi heitir DELAKTIG og kemur í verslanir á þessu ári. Dixon segir að það hafi verið gaman að sjá IKEA setja þrjár síður um samstarfið í bæklinginn sinn, sem er auðvitað mjög góð auglýsing fyrir hann sjálfan og Tom Dixon merkið.

„Þeir gefa 250 milljón eintök af bæklingnum svo þetta eru næstum því milljarður blaðsíðna af umræðu um það hvað húsgögn geta verið. Ég mundi aldrei prenta milljónir bæklinga sjálfur.“



Barðist fyrir sinni sýn

Báðir aðilar græða á þessu samstarfi og Dixon nær að kynna merkið sitt á mjög stórum palli. IKEA vildi fyrst markaðssetja vöruna meira sem sófa en Dixon var ákveðinn að varan ætti að vera rúm sem væri hægt að breyta í sófa. Hann stóð fast á þeirri hugsjón sinni í gegnum allt ferlið.

„Þetta átti alltaf að vera bæði en ég þurfti að berjast eins og maður þarf alltaf að berjast fyrir því að viðhalda einhverri hugmynd.“

Hann segir að það séu miklar líkur á því að hann fari í samstarf með fleiri aðilum í framtíðinni.

„Fyrir mig er þetta tækifæri til þess að haldast ferskur. Það sem þú vilt forðast með öllum hætti er að endurtaka alltaf það sama.“

Samstarf, hvort sem það er með ungum handverksmanni eða risastóru fyrirtæki, gefur tækifæri til þess að gera tilraunir, hugsa um aðra hluti og ná til annarra markhópa.

„Ég held að við séum fyrst núna að komast á það svið hvað varðar okkar eigin viðurkenningu og sýnileika, að ég get leyft mér að fara oftar í samstarf.“

Dixon bendir á að hann hafi aðeins gert þetta nokkrum sinnum á síðustu árum. Aðspurður hvert draumasamstarfið væri nefnir hann að það væri gaman að gera eitthvað óvænt.

„Rafmagnstæki eða eitthvað sem við getum ekki gert sjálf. Vistfræði, sjálfbærni og hlutir sem eru mikilvægir og áhugaverðir og þess virði að taka þátt í, þar sem við erum of smá til þess að hafa veruleg áhrif.“

Það er hægt að fara eigin leið

Hann segist aldrei vera neitt sérstaklega stoltur af sínum vörum eða afrekum. Hann er þó greinilega mjög stoltur af fyrirtækinu sínu og öllu starfsfólkinu sem vinnur þar og hefur unnið þar í gegnum árin.

„Ég kom til baka frá New York á dögunum, ég fór á viðburð til að hitta einn af mínum fyrrverandi starfsmönnum sem hefur stofnað eigið merki á Nýja Sjálandi. Það voru kannski sjö einstaklingar í herberginu sem höfðu verið í mínu fyrirtæki, sumir voru hönnuðir, aðrir í sölu eða markaðsetningu og þau voru öll í þessu merki að gera sitt eigið í Nýja Sjálandi og í New York. Það var frábær tilfinning að heyra hvað þau hrósuðu tímanum hjá mínu fyrirtæki. Í gegnum árin.“

Dixon segist stoltur af því að geta sýnt fólki að það er hægt að fara eigin leið, koma eigin hugmyndum í framkvæmd og það er óþarfi að bíða eftir aðstoð frá einhverju stórfyrirtæki. Það er hægt að láta sína drauma rætast.

Nýja línan frá Tom Dixon er dularfull og dáleiðandi. Hann segir að merkið sé orðið þekkt fyrir vörurnar sem voru hvað mest sýnilegar.

„Í mjög langan tíma voru það koparljósin, sem hefur verið frábært og ég elska þau efni og hef alltaf gert það. Meira að segja fyrir 30 árum síðan hafði ég mikinn áhuga á kopar því það er frábært efni en hefur svolítið yfirtekið þennan markað á vissan hátt.“

Nýju MELT ljósinMynd/Tom Dixon

Ljósin öðlast nýtt líf

Með nýju línunni er Dixon að nota það sem hann hefur lært varðandi innanhúshönnun og prófa aðra hluti sem vekja áhuga hans. Bara það eitt að gera svarta útgáfu af vinsælu koparljósi heppnaðist virkilega vel.

„Þetta varð algjörlega annar hlutur. Vinsælustu vörurnar sem ég hef gert eru oftast túlkaðar á ólíkan hátt eftir því hvar þær eru. Svo skyndilega er ljós sem var tengt við eitthvað skrautlegt eða „bling“ er orðið algjörlega hlutlaus svart ljós sem gefur silfraða birtu. Svo ljósið hefur öðlast nýtt líf sem minimalískur, nánast alvarlegur  tískuhlutur, en er samt sami hluturinn.“

Í nýju línunni eru líka gerðar skemmtilegar tilraunir með ljós sem eru mjög ólík eftir því hvort það er kveikt á þeim eða ekki. Útkoman eru dularfull ljós sem gjörbreytast þegar þú kveikir eða slekkur á þeim. Þegar þau eru kveikt geta þau gjörbreytt öllu rýminu og umhverfi sínu en eru samt ótrúlega falleg líka án þess að peran ljómi.

„Sum ljós eru ótrúlega spennandi þegar það er kveikt á þeim en eru varla til þegar það er slökkt á þeim, og öfugt“ útskýrir Dixon. Hann vildi gera ljós sem stæðu undir sínu í báðum tilvikum.

Mynd/Tom Dixon

Ekki hans aðalástríða

Dixon segir að það sem hafi mótað hann mest sem hönnuð hafi verið sú fjölbreytta reynsla sem hann hefur náð sér í frá unglingsárunum. Hann vann hjá teiknimyndaframleiðanda, var í diskóhljómsveit, rak næturklúbba og vann lengi við logsugu.

Hann hefur unnið sjálfur mikið í höndunum og einnig unnið fyrir lúxusmerki. Hann hefur verið yfirhönnuður hjá stóru fyrirtæki, hannað sjálfur og stofnað eigið fyrirtæki. Hver vinnustaður hefur kennt honum eitthvað eða gefið honum innsýn sem hann nýtir í eigin hönnun.

„Þessi ólíka reynsla hefur gefið mér mjög einstaka sýn á hönnun.“

Hann segir að það hafi líka mótað sig sem hönnuð að hann ætlaði sér aldrei að verða hönnuður.

„Það var aldrei þannig að ég væri hönnuður með þráhyggju fyrir því að verða hönnuður. Það er mikið af hönnuðum sem hafa alltaf viljað vera hönnuðir. Að þetta gerðist fyrir slysni gefur mér annað sjónarmið því þetta var aldrei mín ástríða.“

Nefnir hann bílafyrirtæki sem dæmi, því þar séu aðeins einstaklingar sem hafi alltaf haft mikinn áhuga á bílum.

„Í æsku léku þeir með bíla, sem unglingar keyptu þeir bílablöð og fóru á bílasýningar og svo fóru þeir í nám til að læra um bílahönnun. Þetta er ástæðan fyrir því að allir bílar líta eins út, þeir eru gerðir af fólki með þráhyggju fyrir bílum. Það sem ég kem með er að hönnun hefur aldrei verið mín aðalástríða og minn áhugi kemur frá eldamennsku, tónlist, iðngreinum og mismunandi heimum. Svo ég get nánast horft á hönnunarheiminn utanfrá.“

Dixon sagði að hann væri mjög ánægður með viðtökurnar við merkinu hér á landi.Vísir/Rakel Ósk Sigurðardóttir
Í sínum frítíma er hann ennþá mikið fyrir að mála og spila tónlist.

„Ég hef áhuga á öllu öðru. Stjórnmálum, landafræði, mat og ýmsu öðru. Ég held að það sé gott að fá innblástur úr þessum áttum ef þú ætlar að vera hönnuður.“

Dixon segir að nánast allir hlutirnir sem hann hefur hannað hafa komið öðruvísi út en hann sá fyrir sér í upphafi. Til dæmis hannaði hann klassíska Mirror ball ljósið árið 2004 og átti það að vera spegla umhverfi sitt og nánast hverfa í rýminu. Í stað þess varð það algjör andstæða, mjög sýnilegt og áberandi ljós sem grípur strax augað. Það sló í gegn þrátt fyrir að hafa svikið upprunalegu hugmyndina.

„Ég hef lært mikilvægi mistaka, tilraunastarfsemi og að byrja á einni leið en enda allt annars staðar. Ég held að ef að þú ert með of mikla þráhyggju fyrir lokaútgáfunni, þá eigir þú ekki endilega eftir að komast þangað. En ég horfi samt líka til baka með óánægju á marga hluti og hugsa um það ef ég hefði haft aðeins meiri tíma eða lagt aðeins meiri vinnu í eitthvað ákveðið smáatriði eða ef ég hefði ekki gert málamiðlun varðandi hitt eða þetta, þá hefði þetta orðið að betri vöru. En það er það sem fær mig til að búa til þá næstu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×