Erlent

FIFA býður tælensku drengjunum á úrslitaleik HM

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gianni Infantino sendi bréf til tælenska knattspyrnusambandsins.
Gianni Infantino sendi bréf til tælenska knattspyrnusambandsins. Vísir/AP
Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur boðið tælensku drengjunum, sem sitja fastir í helli í norðurhluta Tælands, að vera viðstaddir úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu - losni þeir úr prísund sinni í tæka tíð.

Í bréfi sem forseti sambandsins, Gianni Infantino, sendi til tælenska knattspyrnusambandsins segir hann að hugur alþjóðlegu fótboltafjölskyldunnar sé hjá drengjunum og fjölskyldum þeirra. Hann segist vona að drengirnir, sem sjálfir æfa knattspyrnu, losni úr hellinum sem fyrst og að bréfið hans verði þeim hvatning á þessum erfiðum tímum. Hann bætir jafnframt við að drengjunum sé boðið á úrslitaleik HM sem fer fram í Moskvu um miðjan mánuðinn.

Sjá einnig: Kafari lést í hellinum

„Ég vona innilega að þeir geti verið með okkur á úrslitunum, sem verður án efa dásamleg stund full af samkennd og gleði,“ segir í bréfi Infantino sem má lesa hér að neðan.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, varpaði fram þeirri spurningu á Facebook-síðu sinni á dögunum hvort ekki væri rétt að leyfa tælensku drengjunum að leiða knattspyrnuliðin tvö, sem mætast í úrslitum HM, inn á völlinn.

Hvort FIFA sé að bregðast við þeirri spurningu skal ósagt látið en ljóst er að mál drengjanna og yfirstandandi björgun hefur fangað athygli heimsbyggðarinnar - eins og Infantino minnist á í bréfi sínu.

Vonir höfðu staðið til að reynt yrði að bjarga drengjunum úr hellinum í dag. Búist er við mikilli rigningu um helgina sem torveldað gæti björgunarstörf. Takist ekki að ná þeim út í dag gætu þeir þurft að hírast í hellinum í einhverja mánuði til viðbótar - nema björgunarfólki takist að dæla nógu miklu vatni úr hellinum þannig að þeir geti skriðið út.

Úrslitaleikur HM fer fram í Moskvu þann 15. júlí næstkomandi.


Tengdar fréttir

Kafari lést í hellinum

Kafari, sem eitt sinn starfaði fyrir tælenska sjóherinn, lést í nótt við björgunaraðgerðirnar þar sem reynt er að ná 12 drengjum og fótboltaþjálfaranum þeirra úr helli í norðurhluta Tælands.

Heimt úr helju í fjölmiðlafári

Nokkur dæmi eru í nútímasögunni um að fólk hafi verið heimt úr helju í fjölmiðlafári eins og því sem ríkt hefur vegna drengjanna í Taílandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×