Innlent

Fjárfestar í fiskeldi slá áformum um uppbyggingu á frest

Heimir Már Pétursson skrifar
Einar K. Guðfinnsson, formaður Landsambands fiskeldisstöðva, segir niðurstöðu Hafró viðhalda þeirri óvissu sem verið hafi um frekari uppbyggingu laxeldis.
Einar K. Guðfinnsson, formaður Landsambands fiskeldisstöðva, segir niðurstöðu Hafró viðhalda þeirri óvissu sem verið hafi um frekari uppbyggingu laxeldis.
Formaður Landsambands fiskeldisstöðva segir fjárfesta hafa slegið áformum um frekari uppbyggingu í laxeldi á frest eftir að Hafrannsóknarstofnun ákvað að endurskoða ekki áhættumat vegna sjókvíaeldis á laxi. Þótt niðurstaða stofnunarinnar séu mikil vonbrigði muni fyrirtækin engu að síður halda til streitu umsóknum um aukið eldi sem nú séu til skoðunar hjá ýmsum stofnunum.

Hafrannsóknarstofnun skilaði áhættumati vegna laxeldis í sjó fyrir um ári sem fiskeldisfyrirtækin vonuðu að stofnunin myndi endurskoða eftir samskipti við Hafró undanfarið ár. Stofnunin hefur hins vegar ákveðið að fyrra mat standi áfram sem þýðir að hún telur ekki ráðlegt að auka eldi á laxi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Einar K. Guðfinnsson, formaður Landsambands fiskeldisstöðva, segir þessa niðurstöðu viðhalda þeirri óvissu sem verið hafi um frekari uppbyggingu laxeldis.

„Þetta hefur þegar haft þau áhrif að fyrirtæki sem voru að undirbúa fjárfestingar í ljósi framtíðar uppbyggingar hafa slegið þeim á frest. Sem mun auðvitað hafa áhrif á atvinnusköpun og þess háttar í þessum byggðum,” segir Einar.  Undanfarna mánuði hafi fiskeldisfyrirtækin unnið í góðri trú á grundvelli áhættumódels Hafró og að þau töldu í samstarfi við stofnunina að hugmyndum sem drægju úr hættu á að fiskur slyppi úr kvíum. Menn hafi því vonast eftir efnislegri niðurstöðu.

„Við höfðum eðlilegar væntingar um að það myndi leiða til meiri framleiðsluheimilda en þarna er einfaldlega sagt pass eins og í spilunum. Þá komast menn ekkert lengra áfram.”

Þýðir þetta að það er úti um áætlanir um frekari uppbyggingu og aukningu í eldi á þessum stöðum?

„Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni. En það er ljóst að þetta mun fresta öllum frekari ákvörðunum,” segir Einar. Hins vegar séu umsóknir um aukið eldi til meðferðar hjá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun og þeirri vinnu verði haldið áfram.

Við vorum að vonast til þess að þarna hefðu menn fastara land undir fótum eftir að hafa farið í gegnum þetta áhættumat. Þess vegna eru þetta gífurleg vonbrigði fyrir okkur. En fyrst og fremst auðvitað hefur þetta áhrif fyrir einstök fyrirtæki og alveg sérstaklega þær byggðir sem höfðu haft réttmætar væntingar um uppbyggingu í fiskeldi,” segir Einar K. Guðfinnsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×