Golf

Varner og Kraft efstir fyrir lokahringinn á Greenbrier Classic

Einar Sigurvinsson skrifar
Harold Varner III á fyrsta degi Greenbrier Classic.
Harold Varner III á fyrsta degi Greenbrier Classic. getty
Harold Varner III og Kelly Kraft eru efstir eftir þrjá hringi á Greenbrier Classic mótinu í golfi sem fram fer um helgina. Mótið er hluti af PGA-mótaröðinni og fer fram í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum.

Harold Varner lék þriðja hringinn á fjórum undir pari og jafnaði með því Kelly Kraft í fyrsta sætinu á 14 höggum undir pari. Kraft lék þriðja hringinn á einu höggi undir pari. Þeir Varner og Kraft eru báðir að stefna á sinn fyrsta sigur í PGA-móti en samtals hafa þeir tekið þátt í 85 mótum.

Jafnir í þriðja sætinu er þeir Kevin Na og ríkjandi meistari mótsins, Xander Schauffele, á 13 höggum undir pari en þeir léku báðir þriðja hringinn á fimm höggum undir pari.

Greenbrier Classic mótið hefur verið haldið frá árinu 2010 og aldrei hefur munað fleiri en tveimur höggum á fyrsta og öðru sæti þess.

Bein útsending frá lokadegi The Greenbrier Classic á PGA mótaröðinni hefst á Golfstöðinni klukkan 17:00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×