Innlent

Eftirför í miðborginni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/eyþór
Eftirför lögreglu, sem hófst um klukkan 1 í nótt, endaði með heljarinnar eignatjóni í miðborg Reykjavíkur. Í skeyti lögreglunnar er málið reifað en þar segir að lögreglumenn hafi haft í hyggju að stöðva bifreið á Sæbraut. Hvers vegna liggur þó ekki fyrir.

Ökumaðurinn hafi þó ekki brugðist við stöðvunarmerkjum lögreglu, þvert á móti hafi hann aukið hraðann og ekið um miðborgina. Hann á að hafa látið fátt stöðva sig; ökumaðurinn er sagður hafa ekið á móti umferð, gegn rauðu ljósi, ofan á gangstéttum o.s.frv.

Eftirförinni lauk svo við Öldugötu þegar ökumaðurinn er sagður hafa ekið á fjölda bifreiða sem á vegi hans urðu. Ökmaðurinn og farþegi hans voru handteknir en þeir eru grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna ásamt fyrrnefndum umferðarlagabrotum.

Áður en þeim var stungið í steininn voru þeir þó fluttir á slysadeild þar sem meiðsl þeirra voru könnuð. Ekki fylgir sögunni hversu alvarleg þau eru.

Þá hafði lögreglan jafnframt afskipti af ökumanni strætisvagns sem sagður er hafa sofnað undir stýri. Blessunarlega var hann þó ekki á ferð þegar svefninn leitaði á hann heldur er vagnstjórinn sagður hafa sofnað á rauðu ljósi og sofið af sér þrjú græn ljós. Lögreglan taldi ekki ástæðu til að aðhafast neitt frekar í máli mannsins eftir að hann var loksins búinn að ranka við sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×