Innlent

Fleiri fylgjandi Borgarlínu en andvígir

Atli Ísleifsson skrifar
Ungt fólk er hlynntara Borgarlínunni en eldra.
Ungt fólk er hlynntara Borgarlínunni en eldra. Fréttablaðið/Ernir
Fleiri Íslendingar, átján ára og eldri, eru fylgjandi Borgarlínu en þeir sem eru henni andvígir. Þetta er niðurstaða könnunar Maskínu. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að um 45 prósent aðspurðra séu hlynnt Borgarlínunni en hátt í 28 prósent eru andvíg. Þá séu tæplega 27 prósent í meðallagi hlynnt eða andvíg Borgarlínunni.

„Ungt fólk er hlynntara Borgarlínunni en eldra. Svarendur á aldrinum 18-39 ára eru hlynntastir en þeir sem eru 50-59 ára eru andvígastir Borgarlínunni. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru jafnframt hlynntari Borgarlínu en aðrir Íslendingar. Milli 53% og 54% Reykvíkinga eru hlynnt henni og naumlega 26% andvíg. Íbúar nágrannasveitafélaga Reykjavíkur eru ekki jafn hlynntir Borgarlínunni en þó segjast um 43% þeirra hlynnt en rúmlega 28% andvíg.

Þeir sem hafa háskólapróf eru talsvert hlynntari Borgarlínunni en þeir sem hafa grunnmenntun og framhaldsskóla- eða iðnmenntun. Um 56% háskólamenntaðra eru hlynnt henni, en aðeins um 34% grunnskólamenntaðra og 36% framhalds- eða iðnmenntaðra. Afstaða til Borgarlínunnar er afar breytileg eftir stjórnmálaskoðun. Um 8-17% þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk, Miðflokk og Flokk fólksins eru hlynnt henni á meðan um 69-81% kjósenda Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar,“ segir í tilkynningunni.

Einnig segir að af íbúum höfuðborgarsvæðisins séu íbúar miðborgarinnar, Vesturbæjar og Seltjarnarness ásamt þeim sem búa í Hlíðum, Laugardal, Háaleiti og Bústöðum hlynntastir Borgarlínunni, eða yfir 58%. Hafnfirðingar og Kópavogsbúar hafi svipað viðhorf til Borgarlínu. Íbúar Garðabæjar skera sig hins vegar úr þar sem fleiri eru andvígir en hlynntir.

Svarendur voru 836 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Könnunin fór fram dagana 19. júní - 2. júlí 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×