Enski boltinn

Aron Einar: Þetta var svo sannarlega biðarinnar virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Vísir/Getty
Aron Einar Gunnarsson skrifaði undir nýjan samning við enska úrvalsdeildarfélagið Cardiff City í dag og verður því með velska félaginu í endurkomunni í ensku úrvalsdeildinni.

Aron Einar var í viðtali á heimasíðu Cardiff City í dag. „Þetta hefur tekið sinn tíma en var svo sannarlega biðarinnar virði,“ sagði Aron Einar í viðtalinu við cardiffcityfc.co.uk.

„Ég vildi alltaf spila hérna áfram og ég sagði stjóranum það þótt að ég talaði ekki mikið um það í fjölmiðlum. Ég vildi bara skila mínu starfi inn á vellinum,“ sagði Aron Einar.  

Hann meiddist skömmu fyrir HM en tókst með ótrúlegum dugnaði og vilja að koma sér aftur í gang fyrir HM í Rússlandi þar sem hann spilaði alla þrjá leiki íslenska landsliðsins.

„Það var mikið og erfitt verkefni að koma til baka og ná að spila fyrir þjóð mína á HM og svo núna fyrir Cardiff. Eftir HM var forgangsatriði hjá mér að ganga frá þessum samningi og ég get ekki beðið eftir því að hitta félagana á ný,“ sagði Aron Einar. Hann er ánægður með sumarið hjá Cardiff. 

„Eigandinn og stjórinn eiga hrós skilið. Þeir hafa unnið gott starf í að styrkja liðið og ég sé að þetta hafi verið góð kaup. Þetta er allt að smella saman nú þegar leikmenn sem hafa verið í liðinu eru að ganga frá sínum málum líka,“ sagði Aron Einar sem hefur sterkar taugar til borgarinnar.

„Litli strákurinn minn fæddist í Cardiff og ég hef gengið í gegnum margt með þessum klúbbi og þessum stuðningsmönnum. Ég get ekki beðið eftir því að klæðast Cardiff-treyjunni á nýjan leik og vera fulltrú höfuðborgar Wales í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Aron.

Aron skrifaði undir samninginn á heimavelli sínum í Þorpinu í Akureyri, á Þórsvelli eins og sjá má að neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×