Innlent

Sigurður Ingi mótmælir landakaupum erlendra fjárfesta

Bergþór Másson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Vísir/Ernir
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag að landakaup erlendra fjárfesta á Íslandi séu mikið áhyggjuefni og að þau þurfi að stöðva.

Um þessar mundir er ríkasti maður Bretlands, Jim Ratcliffe, umsvifamikill í landakaupum á Íslandi og hefur hann keypt um 12 jarðir á Norðausturlandi.

Einnig vakti það mikla athygli þegar hinn kínverski Nubo hugðist kaupa Grímsstaði. Sigurður fagnaði því að það gerðist ekki og sagði það fráleitt að ætla að selja 1,3% af Íslandi til eins aðila.

Jarðarlögum á Íslandi var breytt og segir Sigurður það hreinlega hafa verið gert of auðvelt að kaupa jarðir á Íslandi.

"Þó að Ísland sé stórt land þá er einfaldlega bara til svo mikið af ofurríku fólki í hinum stóra heimi sem geta komið hér og boðið gull og græna skóga fyrir þá sem eru kannski að basla að reyna að nýta landið og skaffa sér og sínum bæði mat og fjármuni til að komast að og standast bara ekki þá samkeppni þegar að menn koma með slíkt fé"

Að lokum segir Sigurður að þetta sé „eitthvað sem við verðum að taka á, og eigum að taka á, og ríkisstjórnin mun taka á.“

Hér að neðan er hægt að hlusta á Sigurð Inga í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.


Tengdar fréttir

Viðræðum við Nubo slitið

Stjórn félagsins sem ætlaði að kaupa Grímsstaði á Fjöllum hefur slitið viðræðum við kínverska fjárfestinn Huang Nubo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×