Innlent

Formennirnir ræddu breytingar á fimm ákvæðum stjórnarskrárinnar

Sunna Sæmundsdóttir og Sylvía Hall skrifa
Formennirnir ræddu breytingarnar á Þingvöllum.
Formennirnir ræddu breytingarnar á Þingvöllum. Fréttablaðið/ERNIR
Formenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi ræddu í gær breytingar á stjórnarskránni er snúa að ákvæðum um náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreðislur og þjóðareign á auðlindum. Fulltrúi Pírata á fundinum segir samræðurnar hafa gengið vel en að formennirnir væru þó mjög ósammála um tillögurnar.

Formennirnir hafa fundað reglulega um málið frá áramótum en ákveðið hafði verið að fundurinn í gær yrði fyrsti langi vinnufundurinn. Hann fór fram í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum og voru tillögurnar sem koma fram í frumvarpinu sem Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, lagði fram árið 2016 til umræðu. 

Helgi Hrafn Gunnarsson, fulltrúi Pírata á fundinum segir að grunnurinn að samtalinu hafi verið lagður í gær. 

„Þetta voru í raun og veru bara skoðanaskipti um þessi tilteknu fimm ákvæði. Það voru þau þrjú ákvæði sem voru lögð fram af Sigurði Inga á 145. þingi.“

„Í heildina voru þetta auðlindaákvæði, náttúruverndarákvæði, þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði, breytingaákvæði, það er að segja hvernig skuli breyta stjórnarskrá, og framsal ríkisvalds.“

Helgi segir að hópnum hafi ekki gefist tími til þess að kafa djúpt ofan í málefnin en að haldið verði áfram með samtalið á næsta fundi. Ekki hefur verið ákveðið hvenær hann verður en Helgi vonast til þess að það verði sem fyrst og stendur þá til að ræða hvernig gagnsæi við vinnuna gagnvart almenningi verður háttað.

„Mér fannst fundurinn sjálfur ganga mjög vel, þetta var gott upp á það að gera að fólk hlustaði á hvort annað, það var saman við þetta borð í fleiri klukkutíma að hlusta á hvort annað. Fundurinn sjálfur gekk mjög vel, svo er fólk auðvitað mjög ósammála um ýmsa hluti en færði þá rök fyrir sínu máli og annað fólk hlustaði á þau rök.“, segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×