Innlent

Sólin heilsar upp á landsmenn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sól!
Sól! Veðurstofan
Sólþyrstir Íslendingar geta tekið gleði sína á ný ef marka má spákort Veðurstofunnar. Gert er ráð fyrir því að það verði léttskýjað á nánast öllu landinu í dag og því ekki við öðru að búast en að sólargeislar muni leika um landsmenn.

Vindur verður um 3 til 10 m/s og hitinn jafnframt hinn bærilegasti, á bilinu 8 til 16 stig og hlýjast syðra.

Fólk ætti að njóta sólarinnar eins og það getur því að hún stoppar stutt við. Það mun bæta í vind í nótt og gerir Veðurstofan ráð fyrir að byrja muni aftur að rigna á morgun, sérstaklega á Vesturlandi.

Þó verður lengst af nokkuð þurrt austantil á landinu. Þar mun jafnframt verða hlýjast en talið er að hitinn gæti farið upp í allt að 19 stig á Austurlandi á morgun.

Veðrið mun svo haldast nokkuð svipað út vikuna. Súld með köflum, nokkuð hægur vindur og hlýjast á Norðaustur- og Austurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Gengur í sunnan 8-15 með rigningu V-til á landinu. Hægari og léttskýjað um landið A-vert, en þykknar upp síðdegis. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast NA-lands.

Á föstudag:

Suðvestan 5-13 m/s. Bjart veður NA- og A-lands, annars skýjað og súld eða rigning framan af degi. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:

Suðlæg átt og fer að rigna, fyrst SV-til, en þurrt NA-lands fram á kvöld. Hiti 8 til 12 stig, en 12 til 17 um landið NA-vert.

Á sunnudag:

Suðvestanátt og súld með köflum, en þurrt á N- og A-landi. Víða rigning um kvöldið. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:

Vestlæg átt með rigningu um mest allt land. Hiti 6 til 11 stig.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir vaxandi sunnannátt með rigningu þegar líður á daginn, fyrst SV-til. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×