Enski boltinn

West Ham kaupir varnarmann fyrir metfé

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Issa Diop bar fyrirliðabandið hjá Toulouse þrátt fyrir ungan aldur.
Issa Diop bar fyrirliðabandið hjá Toulouse þrátt fyrir ungan aldur. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarfélagið West Ham hefur gengið frá kaupum á franska varnarmanninum Issa Diop. Þessi 21 árs gamli miðvörður kemur til Lundúnarliðsins frá franska úrvalsdeildarliðinu Toulouse.

Diop hefur leikið 85 leiki fyrir aðallið Toulouse á síðustu þremur árum en hann hefur sömuleiðis leikið fyrir öll yngri landslið Frakka. Hann á hins vegar möguleika á því að velja á milli þriggja landsliða þar sem móðir hans kemur frá Marókko og faðir hans frá Senegal.

Diop er 194 sentimetrar á hæð og gerir hann fjögurra ára samning við West Ham.

Hann er annar leikmaðurinn sem gengur til liðs við West Ham í sumar en áður hafði liðið klófest enska varnarmanninn Ryan Fredericks. Þá gekk West Ham einnig frá kaupum á Lukasz Fabianski frá Swansea í dag.

Þá hafa Javier Pastore og Felipe Anderson verið orðaðir við West Ham. Manuel Pellegrini, fyrrum stjóri Real Madrid og Man City er nýtekinn við West Ham.

West Ham borgar 22 milljónir punda fyrir Diop sem gerir hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins. Metið átti Marko Arnautovic sem kostaði 20 milljónir punda þegar hann kom frá Stoke í fyrra. Kaupverðið á Austurríkismanninum innihélt reyndar klásúlur sem gætu gert það að verkum að West Ham muni borga allt að 5 milljónir punda til viðbótar.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×