Enski boltinn

Jens Lehmann yfirgefur Arsenal

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lehmann var hluti af ósigruðu liði Arsenal 2003/2004
Lehmann var hluti af ósigruðu liði Arsenal 2003/2004 vísir/getty
Jens Lehmann hefur tilkynnt að hann yfirgefi þjálfarateymi enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal í kjölfar þess að Unai Emery er tekinn við stjórnartaumunum af Arsene Wenger en Lehmann var einn af aðstoðarmönnum Wenger á síðustu leiktíð.

Lehmann er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Arsenal en hann lék 199 leiki fyrir Arsenal á árunum 2003-2008 áður en hann fór til Stuttgart þar sem hann hugðist ljúka leikmannaferli sínum.

Hann sneri hins vegar aftur til Arsenal á seinni hluta tímabilsins 2010/2011 og tók skóna af hillunni til að hjálpa sínu gamla félagi sem var þá í markmannsvandræðum. Hann var varamarkvörður fyrir Manuel Almunia og lék einn leik sem var hans 200. leikur fyrir Arsenal. Varð hann um leið elsti leikmaðurinn til að spila fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni.

Lehmann kom svo inn í þjálfarateymi Arsenal síðasta sumar en hefur nú ákveðið að yfirgefa félagið. Töluverðar breytingar hafa orðið á þjálfarateyminu hjá Arsenal síðan að Emery tók við.

„Kæru stuðningsmenn Arsenal. Mér þykir leitt að yfirgefa félagið aftur eftir aðeins eins árs veru. Það var góð reynsla að vinna með leikmönnum félagsins sem einn af aðstoðarþjálfurum. Félagið þarf ekki á hugarfarinu frá 2004 hópnum að halda lengur,“  segir í tilkynningu frá Lehmann á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×