Ronaldo refsaði Marokkó fyrir dýrkeyptan klaufaskap

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar fyrsta marki leiksins.
Cristiano Ronaldo fagnar fyrsta marki leiksins. Vísir/Getty
Portúgal er í vænlegri stöðu en Marokkó er úr leik á HM í Rússlandi eftir eins marks sigur Portúgala í fyrsta leik dagsins.

Leikurinn byrjaði með látum og skoraði markamaskínan Cristiano Ronaldo eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Markið var 85. landsliðsmark Ronaldo og er hann nú markahæsti landsliðsmaður Evrópu í sögunni.

Allt leit út fyrir að Portúgal, og þá sérstaklega Ronaldo, ætlaði að bjóða upp á sýningu í leiknum en sú átti heldur betur ekki eftir að vera raunin.

Leikmenn Marokkó voru miklu ferskari og þeir óðu í færum, sérstaklega í seinni hálfleik. Skotin fóru þó oftar en ekki framhjá markinu og geta þeir nagað sig í handarbökin yfir því að hafa ekki nýtt færin sín betur.

Evrópumeistarar Portúgal áttu ekki góðan leik en gerðu það sem margir segja einkenni bestu liðin, náðu í sigurinn þrátt fyrir slæma frammistöðu.

Augnabliks gleymska í varnarleiknum, að skilja Ronaldo eftir einan í teignum eftir hornspyrnu, var örlagavaldurinn. Þó verður að minnast á að Marokkó kallaði í þó nokkur skipti eftir vítaspyrnum í leiknum og hefði dómari leiksins alveg mátt ráðfæra sig við myndbandsdómgæslu en sleppti því.

Marokkó er því án stiga eftir tvo leiki í B riðli. Portúgal er með fjögur stig, Íran þrjú og Spánn eitt. Íran og Spánn mætast í kvöld en sama hver niðurstaðan verður úr þeim leik er Marokkó úr leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira