Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - FH 2-1 | Meistararnir sannfærandi gegn FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valsmenn fagna öðru marka sinna í kvöld.
Valsmenn fagna öðru marka sinna í kvöld. Vísir/bára
Valur vann í kvöld sinn fimmta sigur í röð í Pepsi-deild karla er liðið vann góðan 2-1 sigur á FH á heimavelli sínum. Valur endurheimti þar með toppsætið aftur af Stjörnumönnum og virðast komnir á beinu brautina eftir að hafa hikstað í upphafi tímabils.

Öll þrjú mörk leiksins komu í fjörugum fyrri hálfleik þar sem Valsmenn voru sérstaklega kröftugir. Eftir góða pressu í upphafi leiks skoraði Patrick Pedersen á 18. mínútu en FH-ingar, gegn gangi leiksins, jöfnuðu metin eftir frábæra skyndisókn og meiriháttar framtak Steven Lennon.

Valsmenn héldu hins vegar haus og komust yfir aðeins sjö mínútum síðar eftir sérstaklega vel útfærða og glæsilega sókn, sem lauk með því að Einar Karl Ingvarsson skoraði með föstu skoti úr teignum.

FH-ingar stilltu upp sókndjörfu liði í dag en Valsmenn áttu svar við því. Heimamönnum gekk vel að kæfa uppspil gestanna framna af leik og yfirburðir þeirra á miðjunni sáu til þess að þeir sköpuðu sér góð færu og uppskáru tvö góð mörk. Hafnfirðingar áttu fáar sóknir framan af leik en þegar tækifærið gafst nýttu þeir það afskaplega vel, er Lennon jafnaði metin.

Valsmenn náðu ekki að fylgja þessum kraftmikla fyrri hálfleik eftir og áttu erfitt uppdráttar í þeim síðari hvað sóknarleikinn varðar. FH-ingar gerðu sig líklega til að jafna leikinn en miðað við að hafa komið sér oft í góða stöðu vantaði upp á að búa til hættuleg færi upp við mark heimamanna. Hjörtur Logi Valgarðsson fékk eitt besta færi FH-inga en skot hans var vel varið.

Gestirnir settu mikið púður í að sækja jöfnunarmarkið og við það riðlaðist varnarleikur þeirra. Það náðu Valsmenn hins vegar ekki að nýta sér þrátt fyrir efnilegar skyndisóknir sem annað hvort runnu út í sandinn eða voru stöðvaðar af Gunnari Nielsen, öflugum markverði FH-inga í kvöld.

Andri Adolphsson var öflugur í liði Vals í kvöld.Vísir/Bára
Af hverju vann Valur?

Frábær fyrri hálfleikur dugði til að vinna leikinn og reyndist sigurmarkið sérstaklega fallegt. Valsmenn voru heilt yfir betri í dag og áttu svar við sókndjörfu liði FH-inga sem komst ekki almennilega í gang í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Andri Adolphsson átti frábæran fyrri hálfleik en frammistaða Hauks Páls í níutíu mínútur skilar honum útnefningunni maður leiksins. Fleiri í liði Vals áttu góðan dag, svo sem Pedersen, Einar Karl og Eiður Aron í vörninni.

Hvað gekk illa?

FH-ingar voru með öfluga sóknarmenn inni á vellinum í dag en samt var lítill kraftur í þeim. Það kviknaði ekki á Castillion fyrr en seint í síðari hálfleik og það sem hann gerði vel þá skilaði svo litlu sem engu. FH-ingar eru með frábært lið en of margir voru langt frá sínu besta að þessu sinni.

Hvað gerist næst?

Nú tekur við tæplega tveggja vikna frí í deildinni en að því loknu hefst seinni umferð tímabilsins. Valur fer þá í heimsókn til nýliða Keflavíkur og FH-ingar taka á móti Stjörnunni í stórleik í Kaplakrika.

Guðmundur: Ekki nógu skipulagðir í vörninniGuðmundur Kristjánsson, varnarmaður FH, viðurkennir að hans menn hafi ekki komist almennilega í gang í 2-1 tapinu gegn Val á Hlíðarenda í kvöld.

„Svekkjandi tap. Við náðum ágætum köflum inni á milli. Við fengum nokkur færi en það vantaði herslumuninn,“ sagði Guðmundur eftir leikinn í kvöld.

„Við fengum nokkur færi í dag en kannski ekki nógu mikið af afgerandi færum til að klára leikinn. Svo fáum við klaufaleg mörk á okkur og það er bara dýrt. Þegar við leyfum Valsmönnum að skora tvö á okkur þá verður það erfitt,“ bætti hann við.

Hann segir varnarleik FH ekki hafa verið nógu góðan í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik. „Það er klaufagangur á vörninni okkar, við erum ekki nógu skipulagðir,“ bætti hann við að lokum.

Ólafur: Enn fullt eftir
Ólafur Jóhannesson.Bára
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var kátur í leikslok enda hans menn komnir aftur á topp Pepsi-deildar karla eftir 2-1 sigur á FH.

„Ég er mjög glaður. Þetta voru tvö góð lið og hörkuleikur. Sem betur fer datt sigurinn okkar megin,“ sagði Ólafur sem var ánægður með kraftinn í sóknarleik Vals í fyrri hálfleik.

„Við ákváðum að láta finna fyrir, sækja fast á þá og reyna að koma á þá marki sem allra fyrst. Það gekk ágætlega eftir en eins og gerist þegar lið ná forystunni þá vilja þau detta aðeins niður og það gerðist hjá okkur. Mér fannst við aðeins að laga þetta í síðari hálfleik,“ sagði Ólafur.

FH-ingar sóttu á Valsmenn undir lok leiksins en náðu ekki að skora. Ólafur hefði viljað nýta sér skyndisóknirnar sem hans menn sköpuðu sér þá.

„Við komumst nokkrum sinnum í gegn þegar þeir sóttu á okkur á mörgum mönnum og við hefðum átt að nýta okkur það. En það kom ekki að sök í dag, sem betur fer.“

Ólafur er ánægður með að vera kominn aftur á toppinn en segir að það sé enn mikið eftir af tímabilinu. „Það er fullt eftir og við erum bara að safna okkur stigum,“ sagði þjálfari Valsmanna.

Haukur Páll: Liðsheildin er frábær
Haukur Páll í baráttunni við Steven Lennon.Bára
Haukur Páll Sigurðsson átti góðan leik á miðju Valsmanna í kvöld eins og svo oft áður. Valsmenn stýrðu spilinu gegn FH-ingum á löngum köflum í 2-1 sigri þeirra á Hlíðarenda í kvöld.

„Frammistaða liðsins var góð í dag. Þetta var sterkt lið FH sem við mættum og virkilega gott að taka þrjú stig,“ sagði Haukur sem var ánægður með hvernig gekk með að ná yfirtökum á miðjuspilinu.

„Við fórum hátt á þá í fyrri hálfleik og féllum aðeins til baka í seinni. Heilt yfir fannst mér leikplanið ganga vel upp í dag,“ sagði hann. „Við náðum að loka vel á þá. FH-ingar voru með sókndjarft lið hér í dag.“

Valsmenn hafa nú unnið fimm leiki í röð eftir að hafa hikstað í upphafi tímabils. „Mér finnst aðalmunurinn liggja í ákveðinni grunnvinnu sem maður þarf að leggja í leikina. Ef hún er ekki til staðar þá taparðu bara stigum. Við þurfum alltaf að berjast og hlaupa fyrir hverja aðra. Liðsheildin kemur okkur langt og núna finnst mér hún frábær.“

Ólafur: Frábærir Valsmenn áttu skilið að vinna
Ólafur Kristjánsson.vísir/bára
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var svekktur með að hafa ekki gert betur gegn Val í leik liðanna í kvöld en segir að betra liðið hafi fengið stigin þrjú.

„Ég var fúll með markið sem kom úr innkastinu [fyrra mark Vals]. Þar voru 2-3 boltar sem við unnum ekki og þeir skora úr því,“ sagði Ólafur sem hefði líka viljað að hans menn hefðu nýtt sér eitthvað af þeim færum sem þeir sköpuðu sér í síðari hálfleik.

„Það er erfitt að eiga við Valsmenn. Þeir eru með frábært lið og áttu þennan sigur skilinn. Þeir tóku leikinn yfir,“ sagði Ólafur sem var samt ánægður með framlag sinna manna.

„Að mörgu leyti, já. Við reyndum að spila boltanum og byggja á því að spila upp völlinn. Við vissum að þeir byggju yfir meiri líkamlegum styrk sem myndi nýtast þeim vel í návígjum á miðjunni. Ég vildi forðast það,“ sagði Ólafur.

„Ég var svo ekki ánægður með hvað gerðist þegar við komust inn á síðasta þriðjung vallarins. Þar vantaði gæði.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira