Erlent

Vændiskaup innan Lækna án landamæra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þúsundir starfa fyrir Lækna án landamæra, jafnt heilbrigðisstarfsfólk sem og einstaklingar sem fengnir eru til að aðstoða við skipulagningu.
Þúsundir starfa fyrir Lækna án landamæra, jafnt heilbrigðisstarfsfólk sem og einstaklingar sem fengnir eru til að aðstoða við skipulagningu. Vísir/Getty
Starfsmenn mannúðarsamtakanna Lækna án landamæra eru sagðir hafa ítrekað keypt sér aðgang að vændiskonum við störf sín í Afríku.

Fyrrverandi starfsmenn samtakanna segja að vændiskaupin hafi verið útbreidd og farið fram fyrir opnum tjöldum. Yfirmaður í samtökunum hafi jafnvel rætt opinskátt um það að skipta mætti á nauðsynlegum lyfjum og kynlífi með heimamönnum.

Læknar án landamæra starfa eftir ströngum starfsreglum sem banna meðal annars vændiskaup. Í reglunum segir jafnframt að samtökin líði ekki misnotkun, áreitni eða annað ofbeldi. Ásakanirnar sem nú koma fram beinast ekki gegn læknum eða öðru heilbrigðsstarfsfólki samtakanna, heldur eru þeir brotlegu sagðir hafa unnið við skipulagningu og haldið utan um starf Lækna án landamæra í Afríku.

Í samtali við erlenda miðla segir fyrrverandi starfsmaður samtakanna, sem ekki vill láta nafn síns getið, að yfirmaður hennar í Kenýa hafi reglulega fylgt barnungum vændiskonum inn í bækistöðvar Lækna án landamæra.

Undirmenn hans hafi á sínum tíma ekki þorað að greina frá atferli hans, því maðurinn var „töluvert háttsettur,“ eins og það er orðað.

Fleiri sögur eru raktar á vef breska ríkisútvarpsins. Annar yfirmaður hjá samtökunum er sagður hafa látið konu flytja inn til sín í bækistöðvar Lækna án landamæra í ónefndu Afríkuríki. Hann hafi ætíð talað um konuna sem kærustu sína en samstarfsmenn hans telja augljóst að um vændiskonu hafi verið að ræða. „Þetta var svo óforskammað. Svo óforskammað og útbreitt.“

Læknar án landamæra eru ekki fyrstu samtökin sem komast í fréttirnar vegna vændiskaupa. Flett var ofan af svipuðu hneyksli í Oxfam-samtökunum fyrr á þessu ári. Það leiddi til fjöldauppsagna, álitshnekkis ásamt því að margir nafntogaðir stuðningsmenn samtakanna sneru baki við Oxfam.


Tengdar fréttir

Sex reknir frá hjálparsamtökum BBC

Hjálparsamtökin BBC Media Action, sem eru lauslega tengd breska ríkisútvarpinu, hafa rekið sex starfsmenn samtakanna vegna gruns um að þeir hafi beitt samstarfsmenn sína kynferðislegu ofbeldi eða horft á klám í vinnutölvum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×