Innlent

Drykkjurútur slasaðist á girðingu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það var hamagangur í Laugardal í nótt
Það var hamagangur í Laugardal í nótt
Ölvaðir höfuðborgarbúar voru til margvíslegra vandræða í nótt. Tveir drukknir menn lentu til að mynda í brasi í Laugardal á öðrum tímanum í nótt. Þar hafði annar þeirra reynt að klifra yfir girðingu sem fór ekki betur en svo að hann slasaðist á fæti.

Þegar lögreglumenn komu á vettvang brást slasaði maðurinn ókvæða við og er hann sagður hafa verið með „dólgshátt“ við lögreglu - án þess að það sé útskýrt nánar í dagbókarfærslu lögreglunnar.

Hinn maðurinn er sagður hafa verið með álíka mikil drykkjulæti við lögreglumennina, sem ákváðu að handtaka báða mennina og flytja þá lögreglustöðina á Hverfisgötu. Eftir að hafa rætt við mennina tvo fengu þeir þó að halda til síns heima.

Um svipað leyti var karlmaður handtekinn í Vesturbænum, en hann er einnig sagður hafa verið í annarlegu ástandi vegna vímuefnaneyslu. Lögreglan segir manninn hafa verið með mikinn hávaða og raskað svefnfrið Vesturbæinga. Hann var því handtekinn og fluttur í fangaklefa þar sem hann hefur mátt sofa úr sér vímuna.

Þá komust fjölda margir ölvaðir ökumenn í kast við lögin í nótt, sem og þrír menn sem teknir voru með fíkniefni í Laugardal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×