Shaqiri tryggði Svisslendingum endurkomusigur á 90. mínútu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xherdan Shaqiri var hetja Svisslendinga í leiknum og fagnar hér sigurmarki sínu.
Xherdan Shaqiri var hetja Svisslendinga í leiknum og fagnar hér sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Svisslendingar eru í góðum málum í E-riðli eftir 2-1 endurkomusigur á Serbum á HM í fótbolta í Rússlandi í kvöld.

Leikurinn var mjög fjörugur og skemmtilegur og einn allra besti fótboltaleikur heimsmeistaramótsins til þessa.

Svisslendingar eru með fjögur stig eins og Brasilía fyrir lokaumferðina en Serbía er með þrjú stig. Serbía, eina liðið sem vann í fyrstu umferð, þarf nú væntanlega að vinna Brassana til að komast í sextán liða úrslitin.

Svisslendingar eiga leik eftir á móti Kosta Ríka og nægir þar jafntefli til að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitunum.

Xherdan Shaqiri var hetja Svisslendinga í leiknum en hann slapp í gegn í lokin og skoraði sigurmark Svisslendinga á 90. mínútu leiksins. Fram að því höfðu bæði lið hótað því margoft í hálfleiknum að skora þetta mikilvæga annað mark.

Serbar komust yfir í leiknum strax í upphafi og voru miklu sterkara liðið í fyrri hálfleiknum en náðu ekki að bæta við mörkum. Þeir sáu eftir því í seinni hálfleiknum.

Svisslendingar spiluðu mun betur í seinni hálfleiknum, uppskáru glæsilegt jöfnunarmark og svo sigurmark frá Xherdan Shaqiri í lokin.

Jöfnunarmark Granit Xhaka var stórglæsilegt langskot en hann hitti boltann frábærlega og skoraði með óverjandi skoti.

Aleksandar Mitrovic skoraði fyrsta mark leiksins með skalla í upphafi leiks. Hann og félagar hans fengu síðan færi til að auka muninn en það dróg verulega af serbneska liðinu í seinni hálfleiknum.

Svisslendingar áttu miklu meira eftir á lokakaflanum og hefðu getað bætt við mörkum og komið sér í enn betri stöðu.



Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira