Erlent

Dularfullur gibbonapi í grafhýsi tilheyrði ömmu fyrsta Kínakeisara

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Gibbonapapar ásamt unga
Gibbonapapar ásamt unga Vísir/Getty
Vísindamenn í Kína hafa uppgötvað útdauða og áður óþekkta tegund gibbonapa í 2300 ára gömlu grafhýsi keisara. Það rennir meðal annars stoðum undir þá kenningu að mörgum apategundum hafi verið útrýmt af mannavöldum síðustu aldir og árþúsundir.

Apategundin hefur hlotið nafnið Junzi imperialis og er heitið vísun í tengslin við Qin Shihuang, fyrsta keisara Kína. Hann fyrirskipaði byggingu fyrstu hluta Kínamúrsins og lét gera terrakotta hermennina svonefndu.

Sjálft nafnið Kína er talið vera dregið af nafni Qins, sem var uppi á þriðju öld fyrir Krist.

Apinn dularfulli fannst í grafhvelfingu sem er talin tilheyra ömmu keisarans, lafði Xia. Líklegt þykir að apinn hafi verið í hennar eigu, enda hafa gibbonapar lengi verið álitnir stöðutákn kínversku yfirstéttarinnar.

Ásamt beinum apans fundust bein af hlébörðum, bjarndýrum og gaupum í sömu hvelfingu.

Margar tegundir gibbonapa, og apa almennt, eru í útrýmingarhættu í dag. Tvær tegundir hafa nýlega horfið í suðurhluta Kína og eru taldar útdauðar og margar fleiri eru í bráðri hættu.

Hainan gibbonapinn í Suður-Kína er sennilega sjaldgæfasta apategund heims, talið er að innan við 30 dýr séu eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×