Erlent

Loka á kaup á umdeildum skólaárásartölvuleik

Kjartan Kjartansson skrifar
Skjáskot úr Virkum byssumanni. Vinstra megin á skjánum má sjá tölfræði yfir hversu marga óbreytta borgara og lögreglumenn spilarinn hefur drepið.
Skjáskot úr Virkum byssumanni. Vinstra megin á skjánum má sjá tölfræði yfir hversu marga óbreytta borgara og lögreglumenn spilarinn hefur drepið. Vísir/AP
Greiðslusíðan PayPal hefur lokað fyrir kaup á tölvuleik þar sem markmiðið er meðal annars að gera skotárás í skóla. Leikurinn hefur sætt harðri gagnrýni foreldra barna sem hafa fallið í skotárásum í bandarískum skólum.

PayPal segist hafa lokað reikningi Acid Software sem framleiddi leikinn „Virkur byssumaður“ [e. Active Shooter] og vísar til stefnu fyrirtækisins um að taka ekki við greiðslum fyrir hluti sem stuðla að ofbeldi, að sögn AP-fréttastofunnar.

Spilarar geta valið á milli þess að bregða sér í hlutverk byssumanns sem ræðst inn í skóla eða sérsveitar lögreglu sem reynir að stöðva hann. Þeir geta einnig valið sér vopn, handsprengju eða hníf. Tölfræði yfir fjölda óbreyttra borgara og lögreglumanna sem falla í valinn er sýnd á skjánum.

Leikurnin hafði áður verið fjarlægður af tölvuleikjasíðunni Steam og hópfjármögnunarsíðunni Indiegogo eftir fjölda kvartana og undirskriftasafnana. Hýsingarfyrirtæki lokaði einnig vefsíðu leiksins. Hún var þá flutt yfir á rússneska netþjóna.

„Virkur byssumaður“ er hugarfóstur Antons Makarevskíj, 21 árs gamals tölvunarfræðings frá Moskvu. Fyrirtæki hans, Acid Software, hefur séð um að markaðssetja leikinn.

„Það virðist sem allir í Bandaríkjunum séu að reyna að ritskoða okkur án þess að útskýra hvað við erum nákvæmlega að brjóta,“ segir Ata Berdjév, fulltrúi Acid Software í Seattle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×