Innlent

Dreymdi fyrir 36 milljóna Lottó vinning

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Konan keypti sinn miða í Samkaupum á Flúðum en hinn miðinn var keyptur í Snælandi í Núpalind í Kópavogi
Konan keypti sinn miða í Samkaupum á Flúðum en hinn miðinn var keyptur í Snælandi í Núpalind í Kópavogi vísir/vilhelm
Reykvíska konu á besta aldri dreymdi fyrir stórum Lottó vinningi sem hún vann um síðustu helgi. Fyrsti vinningur síðasta laugardag var rúmar 72 milljónir króna sem skiptast á milli tveggja vinningsmiða.

Konan fær helming þeirrar upphæðar eða um 36 milljónir í sinn hlut. Í tilkynningu frá Getspá segir að eftir útdráttinn hafi konuna dreymt fyrir vinningi og því farið á sölustað til að athuga málið. Þar hafi henni verið tjáð að upphæðin væri of há til að afgreiða á staðnum.

Þrátt fyrir það grunaði konuna ekki að hún hefði unnið fyrsta vinning og var því nokkuð róleg þegar hún rölti inn um dyrnar hjá Getspá. Hún hafði áður fengið 30 þúsund króna vinning og bjóst við einhverju svipuðu.

Það er skemmst frá því að segja að henni varð verulega brugðið þegar henni var boðið inn fyrir og tjáð að hún væri 36 milljónum ríkari. Henni varð orðfall og felldi nokkur tár af undrun og gleði eins og segir í tilkynningu.

Alls komu 10.700 vinningar á þá Lottómiða sem voru keyptir fyrir síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×