Fótbolti

„Margt í lífinu mikilvægara en fótbolti“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Vísir/Getty
Heimir Hallgrímsson var spurður út í það á blaðamannafundi eftir tapið gegn Nígeríu í dag hvort að hann hefði séð eftir því að hafa gefið leikmönnum frí í gær. Það var rússneskur blaðamaður sem bar upp spurninguna og lét fylgja spurning um hvað honum þætti um Volgograd og gestrisni heimamanna.

„Ég veit ekki af hverju þessi umræða fór af stað,“ sagði Heimir. „Við töluðum um það á síðasta blaðamannafundi að það væri margt mikilvægara en fótbolti, í tengslum við þau veikindi sem markvörður Nígeríu er að glíma við.“

„Annað sem er mikilvægara í lífinu er fjölskylda. Í gær gafst tækfæri fyrir leikmenn að hitta fjölskyldu og það eiga menn að rækta í lífinu,“ sagði Heimir og bætti svo við.

„Við gefum leikmönnum að sjálfsögðu tækifæri til að hitta sínar fjölskyldur. Þannig hefur það alltaf verið hjá okkur,“ sagði Heimir en svaraði ekki spurningu blaðamannsins um áðurnefnda borg þar sem leikurinn fór fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×