Fótbolti

Kári: Ekki mála skrattann á vegginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ahmed Musa skorar hér annað mark Nígeríu, fram hjá Kára og Sverri Inga.
Ahmed Musa skorar hér annað mark Nígeríu, fram hjá Kára og Sverri Inga. Vilhelm
Kári Árnason, miðvörður Íslands, vildi ekki gera of lítið úr frammistöðu Íslands gegn Nígeríu í dag þrátt fyrir sárt tap sem gerir stöðu okkar manna í D-riðli erfið.

„Við erum ekki vanir að því að tapa og alltaf súrt þegar það gerist. En við vinnum og töpum saman. Við erum ekki í neinum „blame game“ enda engin ástæða til þess,“ sagði Kári og bætti við að frammistaðan í síðari hálfleik hafi ekki verið nógu góð.

„Við vorum algerlega með þá í þeim fyrri. Þeir áttu ekki skot á markið og við lokuðum á allt hjá þeim. Frábær fyrri hálfleikur,“ sagði Kári sem segir að það hafi verið klaufalegt að fá mark á sig eftir fast leikatriði hjá íslenska liðinu hinum megin á vellinum. Það gerðist í aðdraganda fyrra marks Nígeríu í leiknum.

„Við eigum ekki að fá skyndisókn á okkur úr svona stöðu. Markið sló okkur ekki út af laginu heldur riðlaði leikskipulaginu. Ef við hefðum haldið áfram að spila eins og við gerðum í fyrri hálfleik þá hefðum við jafnað þennan leik,“ sagði Kári. „Við nýttum ekki færin okkar í fyrri hálfleik og það kannski kom og beit okkur í rassgatið.“

Hann segir að þetta hafi ekki verið dagur Íslands. Það kom einnig í ljós þegar Gylfi Þór brenndi af vítaspyrnu sinni. „Þetta féll ekki með okkur í dag. Við hefðum getað gert út um leikinn í fyrri hálfleik en þetta gekk ekki.“

Ísland hefur ekki náð að nýta föstu leikatriðin sín nægilega vel en Kári hefur ekki áhyggjur af því. „Við vorum hættulegir í hornum en seinni boltinn datt ekki fyrir okkur. Þeir voru góðir í að verjast föstu leikatriðunum okkar og það var erfitt að rífa sig lausan. Löngu innköstin voru ekki að virka - það var alltaf maður í mér og svo kom hafsentinn og skallaði þetta í burtu.“

„En eins og ég segi. Það þarf ekki að mála skrattann á vegginn. Það var margt gott í þessu. En fyrsta markið átti aldrei að gerast og það riðlaði skipulaginu okkar. Það varð okkur dýrkeypt.“


Tengdar fréttir

Heimir: Ekki röng taktík

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari var að vonum hundsvekktur eftir tapið gegn Nígeríu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×