Erlent

Segir Frakkland hætta á að verða helsta óvinaþjóð Ítala undir stjórn „hins hrokafulla“ Macrons

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Yfirvöld á Ítalíu gefa ekki mikið fyrir fullyrðingar Emmanuels Macron.
Yfirvöld á Ítalíu gefa ekki mikið fyrir fullyrðingar Emmanuels Macron. Vísir/AFP
Í svari starfandi forsætisráðherra Ítalíu, Luigi Di Maio, við fullyrðingu Emmanuels Macron, forseta Frakklands, um að flóttamannastraumurinn fari minnkandi sagði Di Maio:

„Ítalía stendur frammi fyrir neyðarástandi í flóttamannamálum og ástæðan fyrir því er að hluta til vegna þess að Frakkar vísa fólki frá við landamærin. Macron hættir á að gera landið hans að helstu óvinaþjóð Ítalíu,“ segir Di Maio sem gerði grein fyrir óánægju sinni í stöðuuppfærslu á Facebooksíðu sinni.

Macron sagði að með dyggri samvinnu Evrópuþjóða hefði tekist að minnka flæði innflytjenda um nærri 80%. Hann segir að í dag sé vandamálið fyrst og fremst stjórnmálalegs eðlis og tengdist flutningum flóttamanna milli landa innan Evrópu en ekki beint frá átakasvæðum eins og árið 2015 að því er Reuters greinir frá.

Luigi Di Maio, leiðtogi Fimmstjörnu hreyfingarinnar á Ítalíu og starfandi forsætisráðherra landsins er ekki ánægður með fullyrðingar Macrons. Di Maio segir Macron ekki vera í tengslum við raunveruleikann.visir/epa
„Raunveruleikinn er sá að Evrópa stendur ekki frammi fyrir sömu flóttamannakrísu og árið 2015 þegar litið er til umfangs vandans. Land eins og Ítalía finnur alls ekki fyrir sama þrýstingi og í fyrra.“

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, segir að um 650.000 flóttamenn hefðu komið til Ítalíu í leit að hæli á síðustu fjórum árum. Þeim hefðu borist 430.000 umsóknir um hæli og alþjóðlega vernd og þá hefðu Ítalir auk þess veitt 170.000 flóttamönnum hæli sem hefðu kostað þjóðina 5,8 milljarða Evra.

„Ef þetta er ekki vandamál í augum hins hrokafulla forseta Macrons þá biðlum við til hans að hætta að móðga okkur og þess í stað að sýna þessa gestrisni í verki og bjóða þeim börnum, körlum og konum sem koma til landsins frá Ventimiglia velkomin,“ segir Salvini sem vísar til ítalska bæjarins Ventimiglia í norðaustur Ítalíu sem er við landamæri Frakklands.


Tengdar fréttir

Popúlistaflokkarnir loks teknir við völdum

Popúlistaflokkarnir taka við völdum á Ítalíu eftir þriggja mánaða stjórnarkreppu. Ætla ekki að kasta evrunni fyrir borð en vilja lækka skatta og vísa hálfri milljón óskráðra innflytjenda, sem eru mestmegnis flóttamenn, úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×