Innlent

Ein af níu ljósmæðrum á Selfossi hefur sagt upp störfum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ljósmóðir við sjúkrahúsið á Selfossi sem hefur sagt starfi sínu lausu segist ekki ætla að draga uppsögn sína til baka fyrr en reynsla hennar og menntun verði metin að verðleikum. Á sjúkrahúsinu á Selfossi starfa níu ljósmæður en ein þeirra hefur sagt upp störfum vegna óánægju með kjör sín. Ljóst er að ef ekki náist samningar fljótlega í kjaradeilu ljósmæðra getur ástandið á Landspítalanum einig haft áhrif á Selfossi.

Rakel Ásgeirsdóttir sagði starfi sínu lausu á fimmtudaginn og tekur uppsögn hennar gildi að óbreyttu þann 30. september. „Ég alla veganna er búin að segja upp stöðunni minni og vona svo sannarlega að samningar náist, góðir samningar, en ef ekki þá er ég tilbúin að leita á önnur mið,“ segir Rakel.

Hún kveðst vera með dýrmæta reynslu í farteskinu sem hverfi með henni af braut, fari svo að hún láti af störfum í september. „Ég er búin að vinna hérna á Selfossi í tvö ár, fór eftir útskrift til Noregs og var þar í sex ár og þar af hálft ár sem ég fór til Malaví og öðlaðist mikla reynslu þar,” segir Rakel. Hún fór til Malaví í gegnum norsku friðargæsluna og starfaði þar á stærsta sjúkrahúsi landsins þar sem um 16 þúsund börn koma í heiminn árlega.

„Það var alltaf nóg að gera. Mest fékk ég einhverjar tíu fæðingar á einni dagvakt þannig að þetta er náttúrlega bara gríðarlega mikil reynsla í reynslubankann og náttúrlega frumstæðar aðstæður og maður þurfti að læra að bjarga sér og standa á eigin fótum sem að reynist mjög vel hér á Selfossi,“ útskýrir Rakel.

Hún muni ekki draga uppsögn sína til baka nema ljósmæður nái samningum sem þær geti vel við unað, svo hafi ekki verið hingað til að sögn Rakelar. „Bara vera metin að verðleikum.“

 

Cecilie B. H. Björgvinsdóttir, mannauðsstjóri Heilbrigðisstofnunar SuðurlandsVísir/Skjáskot
Cecilie B. H. Björgvinsdóttir, mannauðsstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands segir ljóst að til viðbótar við uppsögn Rakelar geti þær uppsagnir sem taka gildi á Landspítalanum um mánaðarmótin, einnig haft áhrif á Selfossi.

„Við lifum í voninni en við verðum að bregðast við með okkar ljósmæðrum og teikna plan upp þannig að við tryggjum þjónustu til okkar skjólstæðinga,“ segir Cecilie B. H. Björgvinsdóttir. 


Tengdar fréttir

Ljósmæður eru ekki bjartsýnar og sjá fram á verkfall í sumar

Formaður samninganefndar ljósmæðra er ekki bjartsýn eftir fund með ríkissáttasemjara í gær. Undirbúningur yfirvinnubanns ljósmæðra stendur yfir og boðað verður til verkfalls í júlí ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Landspítali segir brýnt að ná sáttum. Skert þjónusta til sængurkvenna og nýbura áhyggjuefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×