Innlent

Samskiptaleysi olli því að vélin reyndist of þung

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar á slysstað í Barkárdal árið 2015
Þyrla Landhelgisgæslunnar á slysstað í Barkárdal árið 2015 Vísir/Völundur Jónsson
Í gær fjallaði Vísir  um nýútgefna skýrslu um flugslysið  í Barkárdal árið 2015.

Tveir flugmenn, Arngrímur Jóhannsson og hinn kanadíski Arthur Grant Wagstaff stýrðu vélinni. Ætlunin var að fljúga frá Íslandi til Bandaríkjanna með nokkrum stoppum.

Í skýrslunni kemur fram að þegar vélin fór í loftið var hún 250 kílóum yfir leyfilega þyngd hennar. Þá var auka eldsneytistanki komið fyrir í farþegasæti um borð og skráður sem flutningsfarmur.

„Niðurstaða nefndarinnar er að flugvélin hafi verið töluvert of hlaðin, það er eitt af meginþáttunum þess að slysið á sér stað. Ofhleðsla vélarinnar veldur talsverðri skerðingu á afkastagetu hennar,“ segir Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Hver ber ábyrgð á ofhleðslu vélarinnar? 

„Það er ávallt þannig að sá flugmaður sem er skráður fyrir fluginu ber lokaábyrgð á því að vélin sé rétt hlaðin,“ segir Ragnar.

Veðurskilyrði voru slæm og var tekin sú skyndiákvörðun að fljúga inn í þröngan Barkárdal. Erfitt reyndist að stýra vélinni vegna ofþyngdar og brotlenti hún um þremur korterum eftir flugtak.

Eldur kom þá upp í vélinni. Reyndi þá Arthur að opna hægri hurð flugvélarinnar, sem reyndist föst. Ætlaði hann að opna farþegahurðina en í vegi fyrir henni var umræddur eldsneytistankur. Tókst honum því ekki að komast úr vélinni.

Arngrímur kom hins vegar auga á sprungu í rúðu á hurðinni. Honum tókst að skalla rúðuna með höfðinu, þar til hún brotnaði vil illan leik. Honum tókst þá að skríða út vélinni. En rétt eftir að hann komst út urðu sprengingar í vélinni.

„Samskipti milli flugmanna var ábótavant. Þeir ræða ekki sín á milli um framkvæmd. Þeir ræddu ekki sín á milli hve mikið eldsneyti var sett á vélina. Það er ein af ástæðum þess að vélin var svona ofhlaðin,“ segir Ragnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×