Erlent

Mannfall í Nígeríu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ættbálkarnir eiga sér langa átakasögu.
Ættbálkarnir eiga sér langa átakasögu. Vísir/Getty
Hið minnsta 86 eru látnir eftir átök tveggja ættbálka í Nígeríu. Haft er eftir talsmanni þarlendra lögregluyfirvalda á vef breska ríkisútvarpsins að átökin hafi verið á milli Berom-þjóðarinnar og Fulani-ættbálksins. Sá fyrrnefndi, sem sagður er samanstanda nær alfarið af bændum, er talinn hafa drepið 5 Fulani-hirðingja á fimmtudaginn síðastliðinn.

Hirðingjaþjóðin hafi svo svarað árásunum á laugardag, sem leitt hafi til fyrrnefnds mannfalls. Ættabálkaóeirðir eru tíðar í Nígeríu, ekki síst í miðhluta landsins þar sem mannfallið var hvað mest um helgina. Þar hefur jafnframt verið sett á útgöngubann.

Lögreglustjóri svæðisins segir að um 86 hafi verið myrtir um helgina og 6 slasast. Þar að auki hafi verið borinn eldur að um 50 húsum, 15 bifhjólum og tveimur bifreiðum.

Forseti landsins, Muhammadu Buhari, er sagður undir miklum þrýstingi vegna átakanna á svæðinu - ekki síst vegna þess að hann sækist eftir endurkjöri á næsta ári. Til þess að bregðast við ástandinu hafi forsetinn meðal annars flutt höfuðstöðvar lögreglunnar til átakasvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×