Fótbolti

Aron Einar: Heyrum það á íslensku áhorfendunum ef það gerist eitthvað í hinum leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenskir stuðningsmenn í Rússlandi.
Íslenskir stuðningsmenn í Rússlandi. Vísir/Vilhelm
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta þarf bæði að vinna Króatíu og treysta á úrslit úr hinum leik riðilsins til að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitunum á HM í Rússlandi.

Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson voru spurðir út í það á blaðamannafundi hvernig íslenski landsliðið mun fylgjast með stöðunni í leik Argentínu og Nígeríu á morgun.

„Auðvitað fá þjálfarinn og þeir sem eru á hliðarlínunni upplýsingar um það sem er í gangi í hinum leiknum. Það hefur alltaf verið þannig. Inni á vellinum hugsum við bara um okkur. Erum að spila á móti frábæru liði Króatíu. Þurfum sigur og svo vonum við það besta,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.

„Það er nógu erfitt verk að fara í leik og reyna að vinna Króatíu. Auðvitað erum við með menn, samskiptabúnaður við menn uppi í stúku sem bæði horfa á leikina og vita af stöðunni. Við ætlum að fókusa sem mest um leikinn hjá okkur,“ sagði Heimir.

Aron Einar bætti við: „Ég reikna með því að áhorfendur fylgist vel með. Við heyrum læti ef eitthvað gerist,“ sagði Aron Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×