Erlent

Hvítur „hræsnari“ sakaður um kynþáttafordóma í garð átta ára vatnssölukonu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Úr myndbandinu sem deilt var á samfélagsmiðlum. Viðbrögð Ettel, sem hefur verið uppnefnd Permit-Patty, hafa vakið hörð viðbrögð netverja.
Úr myndbandinu sem deilt var á samfélagsmiðlum. Viðbrögð Ettel, sem hefur verið uppnefnd Permit-Patty, hafa vakið hörð viðbrögð netverja. Skjáskot/Twitter
Bandarísk kona að nafni Alison Ettel hefur vakið mikla reiði notenda á samfélagsmiðlum eftir að myndbandi, þar sem hún virðist tilkynna vatnssölu átta ára gamallar svartrar stúlku til lögreglu, var deilt á netinu.

Í myndbandinu, sem ættingjar stúlkunnar deildu á bæði Twitter og Instagram, sést Ettel tala í símann. Samkvæmt frétt á vef Mashable er móðir stúlkunnar á bak við myndavélina og lýsir hún meintri atburðarás sem á undan var gengin.

„Þessi kona vill ekki að lítil stúlka selji vatn. Hún er að hringja á lögregluna vegna átta ára stúlku. Þú getur falið þig eins og þú vilt en allur heimurinn mun sjá þig, elskan,“ heyrist móðirin segja.

Þá svarar Ettel því til að stúlkan hafi staðið að ólöglegri vatnssölu án tilskilins leyfis frá yfirvöldum í San Fransisco í Kaliforníu, þar sem málið kom upp. Þar eð umrædd stúlka er svört og Ettel hvít hefur atvikið verið sett í samhengi við fordóma og kynþáttaspennu í Bandaríkjunum.

Framkoma Ettel hefur jafnframt orðið umfjöllunarefni stjarnanna á Twitter, þar á meðal söngkonunnar Gabrielle Union og leikkonunnar Debru Messing, sem gagnrýna Ettel harðlega.

Málið hefur einkum vakið athygli fyrir meinta hræsni Ettel en hún rekur fyrirtæki sem framleiðir kannabisvörur fyrir bæði menn og dýr. Kannabisvörur ætlaðar dýrum eru á nokkuð gráu svæði innan alríkislagarammans í Bandaríkjunum, samkvæmt úttekt SF Gate, og því er mögulegt að Ettel sjálf hafi ekki fengið leyfi fyrir starfsemi sinni. Þá hefur töluverður fjöldi verslana sem selja kannabisvörur lýst því yfir að þær hyggi ekki á frekara samstarf með Ettel.

Ettel veitti Huffington Post viðtal vegna atviksins. Hún sagði skerandi há öskur stúlkunnar, í þeim tilgangi að selja vatn, hafa komið svo illa við sig að hún ákvað að hringja á lögreglu. Ettel sagðist þó að endingu aðeins hafa þóst ræða við lögreglu í síma og bætti við að hún sæi eftir hegðun sinni.

Þá hefur málum lyktað farsællega, a.m.k. af hálfu vatnssölukonunnar ungu, en hugulsamur netverji keypti handa henni fjóra aðgöngumiða í skemmtigarðinn Disneyland. Ferð í Disneyland var einmitt tilefni sölunnar en stúlkan hugðist safna sér fyrir miða í garðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×