Harley-Davidson flytur framleiðslu frá Bandaríkjunum vegna tolla

Mótorhjólaframleiðandinn Harley-Davidson ætlar að flytja framleiðslu sína fyrir Evrópumarkað frá Bandaríkjunum vegna tolla sem Evrópusambandið hefur lagt á innflutning á mótorhjólum hans. Tollarnir voru svar ESB við verndartollum Donalds Trump Bandaríkjaforseta á innflutt ál og stál.
Forsvarsmenn Harley-Davidson áætla að tollar ESB kosti fyrirtækið 90-100 milljónir dollara á ári. Verð á hverju mótorhjóli muni hækka um 2.200 dollara, jafnvirði um 238 þúsund íslenskra króna, í Evrópu vegna 25% tolls sem ESB hefur lagt á þau. Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu um fimm prósentustig í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Fyrirtækið segist engu að síður ekki ætla að hækka verð til umboðsaðila þar sem það telur að slíkar verðhækkanir myndu valda skyndilegum og varanlegum skaða fyrir vörumerkið í Evrópu.
Trump forseti vísaði til þjóðaröryggis þegar hann lagði verndartolla á evrópskt stál og ál. Tollunum er ennfremur ætlað að verja störf í Bandaríkjunum.
Fram að þessu hafa tollarnir hins vegar haft þveröfug áhrif á starfsemi Harley-Davidson í Bandaríkjunum. Fyrir utan kostnaðinn af viðbrögðum ESB nú sögðu forsvarsmenn bifhjólaframleiðandans að tollarnir á innflutt stál og og ál myndu auka kostað um 15-20 milljónir dollara á þessu ári.