Umfjöllun: Ísland - Króatía 1-2 | HM-draumurinn á enda eftir grátlegt tap

Kolbeinn Tumi Daðason á Rostov Arena skrifar
Strákarnir niðurlútir eftir tapið í kvöld.
Strákarnir niðurlútir eftir tapið í kvöld. Vísir/Getty
Þátttöku strákanna okkar á HM í Rússlandi er lokið eftir 2-1 tap gegn Króatíu á Rostov Arena í kvöld. Okkar menn áttu einn sinn besta leik í langan tíma, sköpuðu sér færi eftir færi en nýttu þau ekki. Svekkelsið er mikið en stoltið sömuleiðis.

Ísland hafnar í neðsta sæti D-riðils með eitt stig. Þau hefðu getað verið miklu fleiri og af því verða strákarnir að læra. 270 mínútur og viðbótartími fara í glósubókina fyrir verkefnin framundan. Ævintýrið er ekki búið.

Þeir sem borguðu fúlgur fjár fyrir miða á Rostov Arena í kvöld, flugu fleiri þúsund kílómetra og studdu íslenska landsliðið fengu allt fyrir peninginn og viðbót. Strákarnir okkar buðu upp á einhverjar þær bestu og mest spennandi mínútur sem landsliðið hefur gefið okkur. Og er af nógu að taka. Frá fyrstu mínútu var ljóst að okkar menn ætluðu að selja sig dýrt gegn góðkunningjum sínum frá Króatíu.

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari gerði óvænta breytingu á byrjunarliðinu. Aldursforsetanum Kára Árnasyni var þakkað fyrir 180 mínútur gegn Argentínu og Nígeríu og inn kom Sverrir Ingi Ingason. Heimamaðurinn í Rostov vann fyrstu tæklinguna og greinilega klár í stóru stundina. Ragnar Sigurðsson og Sverrir Ingi spila í hjarta varnarinnar hjá FC Rostov og mynda framtíðarmiðvarðarpar landsliðsins.

Fyrsta tæpa hálftímann gerðist lítið sem ekkert ef frá er talið olnbogaskot sem Birkir Bjarnason fékk eftir ellefu mínútur. Blóðið flæddi og þurfti Birkir að skipta um treyju og troða pappír í nasirnar á sér. Hann efldist við mótlætið og það virtust allir leikmenn Íslands gera. Smá „blod på tanden“. Um svipað leyti bárust tíðindi frá Sankti Pétursborg þar sem Lionel Messi var búinn að brjóta ísinn gegn Nígeríu. Allt að ganga upp, Ísland þurfti bara eitt mark. Vonin sem var svo veik fyrir leik orðin svo mikil.

Færi eftir færi forgörðum
Hörður Björgvin skallar að marki.Vísir/Getty
Króatar voru með boltann um 75 prósent tímans, flestir að þreifa fyrir sér því aðeins tveir byrjuðu leikinn gegn Argentínu. Komnir áfram og ekkert annað í stöðunni en liðið ynni riðilinn óháð úrslitum kvöldsins. Engin væri var til að tala um fyrr en á 28. mínútu þegar hinn klóki Alfreð Finnbogason sótti hornspyrnu af einskærri kænsku. 

Hörður Björgvin, sem axlaði boltann inn í 1-0 sigrinum í Reykjavík fyrir ári, stangaði boltann framhjá úr góðu færi. Forsmekkurinn fyrir færaflóðið sem í hönd fór. Kalinic varði aukaspyrnu Gylfa utan teigs, Birkir Bjarna fékk skotfæri eftir vel útfært born, Alfreð skaut rétt framhjá innan teigs eftir veggspil við Gylfa Þór og Kalinic varði frá Birki með fótunum eftir langt innkast.

Allir fundu það á sér. Það hlyti að styttast í íslenska markið. Það hefði verið svo verðskuldað. Í viðbótarrtíma var fyrirliðinn sjálfur kominn inn á teiginn, tók skot í fyrsta sem stefndi í markhornið uppi fjær. Kalinic nýtti alla 201 sentimetrana og varði. Í heimi þar sem ævintýri enda vel hefði boltinn steinlegið í vinklinum. En okkar strákar áttu að þurfa að hafa meira fyrir hlutunum. Og lífið er ekki alltaf sanngjarnt.

Króatar refsa
Badelj skorar fyrra mark Króata.Getty
Áhugalausir. Þannig virkuðu Króatar fyrstu mínútur seinni hálfleiks. Eina leiðin til að þeir gætu misst efsta sætið væri stórsigur Nígeríu. En sofandi áhugalaus Króati kann samt að skjóta á markið Það sýndi Milan Badelj þegar skot hans af 25 metrum small í þverslánni. Viðvörunarbjalla því ógæfan dundi yfir augnabliki síðar, á tveimur stöðum.

Okkar menn töpuðu boltanum klaufalega aftast, náðu ekki að bregðast nógu vel við fyrirgjöf, Badelj á auðum sjó í teignum og skoraði örugglega. Gæði í afgreiðslu sem okkar menn hafði vantað í leiknum, og öllu mótinu ef út í það er farið. Í Sankti Pétursborg jafnaði Nígería. Slæmar tíðindi, eins og haglél í Reykjavík í lok júní. En ef einhver hélt að okkar menn myndu bogna eða brotna var það fjarri lagi.

Á næstu fimm mínútum sóttu okkar menn án afláts. Kalinic varði skalla Sverris Inga yfir, svo fór skalli í slá. Tvö dauðafæri en sýndu um leið mögulega ástæðu þess að Sverrir byrjaði inn á. Stórhættulegur í teig andstæðinganna. 

Jói Berg lét vaða utan teigs og Alfreð fékk boltann í færi eftir frábært spil Íslands en móttakan sveik hann. Tíminn leið og vann ekki með okkar mönnum. Alfreð var heppinn að sleppa með gult þegar hann renndi sér í Kalinic með takkana á undan. Okkar menn grimmir.

Hendi, víti!
Gylfi Þór fagnar marki sínu.Getty
Síðari hálfleikurinn var tæplega hálfnaður þegar Gylfi lét vaða á markið en skotið framhjá. Leikurinn galopinn. Modric var skipt af velli fyrir Filip Bradaric sem hafði ekki spilað mínútu í mótinu. Lykilmaður hvíldur. Enn einn. Fínt að losna við hann.

Króatísk skipting á 69. mínútu gaf okkar mönnum færi á að vökva sig og fara yfir málin með Heimi þjálfara. 25 mínútur til stefnu. Allt gefið í botn. Birni Bergmann var skipt inn á fyrir Ragnar. Framherji fyrir miðvörð. Allt eða ekkert. Tveimur mínútum síðar sendi Alfreð fyrir á Birki sem fékk enn eitt dauðafærið en hitti ekki boltann. 

Birkir hengdi haus, en aðeins augnablik. Enn var von og svo gerðist það. Vítaspyrna dæmd á 75. mínútu, varamaðurinn Dejan Lovren handlék boltann. Annað tækifæri fyrir Gylfa Þór Sigurðsson og það vissu allir hvað myndi gerast. Besti knattspyrnumaður Íslands undanfarin ár skoraði af fádæma öryggi og vonin kviknaði aftur. Tími til stefnu og okkar menn í banastuði.

Allt að ganga upp, en svo Perisic
Perisic skorar sigurmark Króata.Getty
Víkingaklapp þar sem virkaði eins og allir 43 þúsund áhorfendur tækju undir. Allt var að verða vitlaust í stúkunni. Kliðurinn, öskrin, lætin. Vá, gæsahúð. „Áfram Ísland“ bergmálaði í stúkunni. Rakitic var sendur inn á til að lægja íslensku öldurnar. Rússar klöppuðu en Íslendingum var slétt sama.

Annað óvænt útspil hjá Heimi á 85. mínútu þegar Albert Guðmundsson var settur inn á fyrir Alfreð Finnbogason. Gæti sá ungi, efnilegir, kyndilberinn bjargað málunum? Rakitic negldi rétt yfir markið úr aukaspyrnu en hvað var að gerast í Sankti Pétursborg? Argentína að skora, 2-1 og Ísland þurfti bara eitt mark.

„Arnór Ingvi!“ Markaskorarinn gegn Austurríki fyrir tveimur árum kallaður á vettvang. Birkir Bjarna spretti útaf. Hver sekúnda skipti máli. Gæti hið ómögulega gerst? 

Svarið, eins sárt og það er að skrifa það, var nei. Emil, sem hafði átt algjörlega stórkostlegan leik, tapaði boltanum á versta stað. Perisic lék inn á teig og lúðraði boltanum upp í vinkilinn. Á einu augnabliki var möguleikinn úti. Svekkjandi? Mjög. Okkar menn minntu á sig allt til seinustu sekúndu en ævintýrið átti ekki að enda vel.

Halda heim stoltir
Aron Einar Gunnarsson eftir leikinn í kvöld.Getty
Okkar menn spiluðu frábærlega í „Ros Angeles“ í kvöld, rússnesku rappborginni þar sem þrír Íslendingar vinna fyrir sér með því að sparka í bolta. Þeir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð, sköpuðu sér urmul færa og héldu afttur af stórkostlegum leikmönnum Króata. En fyrir framan markið vantaði gæðin til að troða boltanum í netið. 

Frammistaðan í Rostov verðskuldar mikið lof og hún fyllti vafalítið þjóðina stolti. Möguleikinn var lítill. Króatar eru með lið til að fara alla leið í mótinu og eru á seinasta séns að gera það, með gullkynslóðina sína og leikmenn sem hafa unnið allt nema verðlaun fyrir landslið sitt. En okkar menn börðust til lokaflauts, fyrir land og þjóð. Sýndu viljann í verki og ekki dropi eftir þegar ballið var búið.

Íslenska liðið tók enn eitt skrefið fram á við í kvöld. Ævintýrið heldur áfram, með eða án Heimis Hallgrímssonar sem lýkur nú samningi sínum við KSÍ.  Kári er 36 ára, Emil og Birkir Már 34 ára sem og Hannes en það er enginn aldur fyrir markverði. Aðrir eru á besta aldri.

Framundan er Þjóðadeildin í haust þar sem liðið verður í efsta styrkleikaflokki, í Meistaradeild Evrópuþjóða eins og Heimir þjálfari orðar það. Ævintýrið er hvergi nærri búið. Ævintýrið var á HM í Rússlandi. Frumsýningunni er lokið en okkar menn hafa sýnt það að þeir standa öllum snúning. En fótboltinn ræðst á augnablikum, að nýta færin sín og gera fá mistök, og því fengu okkar menn að kynnast á HM í fótbolta.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira